Miskabætur lækkaðar um 13 milljónir í Hæstarétti

Hæstiréttur lækkaði miskabætur íslenska ríkisins til handa nígerískum karlmanni um …
Hæstiréttur lækkaði miskabætur íslenska ríkisins til handa nígerískum karlmanni um 13 milljónir. mbl.is/Oddur

Íslenska ríkinu hefur verið gert í Hæstarétti að greiða nígerískum karlmanni sex milljónir króna vegna frelsissviptingar.

Í júní á síðasta ári var ríkinu, í Landsrétti, gert að greiða manninum 19 milljónir króna í miskabætur vegna málsins en maðurinn sat í gæsluvarðhaldi í ellefu mánuði vegna rannsóknar máls sem lauk með því að hann var dæmdur til tveggja mánaða fangelsisvistar.

Hann var dæmdur fyrir peningaþvætti af gáleysi en þrír Íslendingar höfðu í sama máli verið dæmdir fyrir peningaþvætti af ásetningi og til þyngri fangelsisrefsingar.

Nýtti sér ávinninginn af gáleysi

Óþekktur maður komst inn í tölvupóstssamskipti Nesfisks og fyrirtækis í Suður-Kóreu og fékk suðurkóreska fyrirtækið til að greiða andvirði fisks inn á rangan reikning. Maðurinn var dæmdur fyrir að hafa af gáleysi nýtt sér ávinning millifærslunnar.

Manninum voru upphaflega dæmdar 4,5 milljónir króna í miskabætur í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Miskabótakrafa mannsins byggðist á gæsluvarðhaldi hans í 269 daga og farbanni í 57 daga umfram tveggja mánaða fangelsisvist samkvæmt dómi Landsréttar. Maðurinn sætti þá hindrun við að komast úr landi í 15 daga eftir dóm héraðsdóms þar til honum var fylgt úr landi.

Sætti gæsluvarðhaldi langt umfram efni

Við ákvörðun bóta var vísað til ákvæða stjórnarskrár og sakamálalaga sem kveða á um að sakborningur verði ekki látinn sæta gæsluvarðhaldi lengur en sýnt þyki að fangelsisrefsing verði dæmd. Maðurinn hafi sætt gæsluvarðhaldi langt umfram það og því sviptur frelsi að ósekju en íslenska ríkið var jafnframt talið bera ábyrgð á gæsluvarðhaldsvist sem maðurinn sætti á Ítalíu að beiðni íslenskra yfirvalda.

Ber hlutlæga bótaábyrgð

Héraðsdómur Reykjavíkur miðaði miskabætur ekki við gæsluvarðhaldið á Ítalíu. Landsréttur dæmdi ríkið hins vegar til að bæta manninum bæði þann tíma sem hann sætti gæsluvarðhaldi á Íslandi og Ítalíu.

Hæstiréttur telur íslenska ríkið bera hlutlæga bótaábyrgð vegna miska stefnda af því að sæta gæsluvarðhaldi á Ítalíu í aðdraganda framsals hans hingað til lands með sama hætti og gildir um gæsluvarðhald hans hér á landi umfram þann tveggja mánaða fangelsisdóm sem hann hlaut.

mbl.is