Nokkir þættir skýra afkomuna að miklu leyti

Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs.
Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Talsvert hefur verið rætt um að bjóða út allan akstur Strætó bs. Magnús Örn Guðmunds­son, stjórn­ar­formaður Strætó, sagði í haust allt kalla á aukna út­hýs­ingu rekstr­ar­ins. Hann sagði að víða er­lend­is út­hluti op­in­ber byggðasam­lög útboðum og feli einkaaðilum akst­ur­inn. 

Engin ákvörðun verið tekin

Jó­hann­es Svavar Rún­ars­son, fram­kvæmda­stjóri Strætó, segir að málið hafi verið skoðað alvarlega á síðasta ári og að það verði áfram til ígrundunar á þessu ári.

„Það hefur engin ákvörðun verið tekin en ef af verður munum við eingöngu sjá um skipulagningu, stjórnun og þjónustu við viðskiptavini.“

Jóhannes segir allar greiningar sýna fram á að aðkeyptur akstur sé ódýrari og segir hann því mjög eðlilegt að sá möguleiki sé skoðaður gaumgæfilega.

Meiri sveigjanleiki á almennum markaði

En hvaða jákvæðu áhrif hefur útboð á öllum akstri í för með sér fyrir rekstur Strætó?

„Þetta er samspil margra þátta. Alltaf þegar Strætó kaupir vagna þarf að bjóða út þannig að við erum komin með átta eða níu tegundir af vögnum. Það hefur þá þýðingu að lager varahlutabirgða þarf að vera stærri og kannski þarf meiri mannskap til að gera við því það þarf að sérþjálfa menn í hverri tegund, sem dæmi.

Þá eru önnur réttindi og skyldur á opinberum markaði en á almennum markaði. Sveigjanleikinn er betri á almennum markaði þar sem menn geta samnýtt hluti og eru til dæmis að láta menn flakka á milli ferðaþjónustuhlutans og strætóhlutans. Þannig að þetta telur oft saman.“

Mikið tap af rekstri

Tap af rekstri Strætó á síðasta ári nam um 834 millj­ón­um króna en áætl­un gerði ráð fyr­ir nei­kvæðri niður­stöðu af rekstri um 242 millj­ón­ir króna. Tap af rekstri Strætó var því um 592 millj­ón­um um­fram áætl­un árs­ins og nærri tvö­falt tap miðað við síðasta rekstr­ar­ár.

Jóhannes segir nokkra þætti skýra þessa afkomu að miklu leyti. Hann segir kostnaðarverðshækkanir á olíu og öðru hafa haft mikil áhrif á rekstur félagsins á síðasta ári og að fyrstu mánuðir ársins hafi verið litaðir miklum samgöngutakmörkunum sem höfðu áhrif á tekjurnar.

Þá segir hann auka gjaldfærsla upp á rúmar 200 milljónir króna hafa verið færða í bækur félagsins vegna dómsmáls en félagið var dæmt til að greiða Teiti Jónassyni fjárhæðina vegna útboðs á akstri á fimmtán leiðum á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2010. Alls hefur félagið gjaldfært um 300 milljónir króna frá upphafi málsins.

Þessir þættir sem og sú ákvörðun að halda þjónustustiginu sem mestu hafi hve mest áhrif á afkomuna, þó hagrætt hafi verið fyrir 300 milljónir króna á rekstrarárinu.

Hvað dómsmálið varðar segir Jóhannes að líklega muni Strætó ekki takast að fá dómnum í heild sinni hnekkt.

„En við erum að reyna að fá upphæðina lækkaða en við teljum okkur hafa góð rök fyrir því að miðað hafi verið við rangar forsendur í útreikningi hennar. Málið verður vonandi leitt til lykta í Landsrétti einhvern tímann á þessu ári og bíðum bara og vonum,“ segir Jóhannes.

mbl.is