Rusl á víðavangi í Víðinesi

„Allir sem keyra hingað til mín, og eru til dæmis …
„Allir sem keyra hingað til mín, og eru til dæmis að vinna fyrir mig, spyrja út í þetta,“ segir Rúnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikið rusl hefur safnast saman í túninu við Víðinesveg, við urðunarstöð Sorpu á Álfsnesi, og raunar fokið lengra og víðar ef marka má frásagnir vegfarenda og rekstraraðila á svæðinu. 

Einstaklingur, sem er tíður gestur á svæðinu, vakti athygli mbl.is á ruslinu og kvað það hafa fokið frá urðunarstöðinni.

„Þetta var líka svona í fyrra, svo óx yfir þetta og þá truflaði þetta engan. Svo fýkur þetta út í sjó. Ég hélt við værum að reyna að vinna gegn plastmengun, þess vegna er leitt að sjá þetta,“ sagði vegfarandinn.

Myndir frá svæðinu sýna ruslið.
Myndir frá svæðinu sýna ruslið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki góð landkynning

Rúnar Þór Guðmundsson, rekstraraðili sem vinnur nú að opnun gistiheimilis á svæðinu tók í sama streng, þegar mbl.is sló á þráðinn.

„Já, þetta er alveg glatað. Maður sér bara ruslið þarna og allir sem keyra þarna að, sérstaklega núna þegar lúpínan er ekki komin upp,“ segir hann og bætir við að sér finnist sér í lagi leiðinlegt að horfa upp á plastmengun í ljósi frétta af breyttu flokkunarkerfi.

„Nú á að flokka plast í fjóra hluta, og svo fýkur þetta vel flokkað þarna um allt,“ segir Rúnar og hlær við.

Rúnar stefnir að því að opna gistiheimilið í sumar og því ber að vænta að hann sé ekki spenntur að bjóða túristunum upp á fjúkandi rusl.

Tíður gestur svæðisins kvað ruslið einnig hafa verið þar í …
Tíður gestur svæðisins kvað ruslið einnig hafa verið þar í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Allir sem keyra hingað til mín, og eru til dæmis að vinna fyrir mig, spyrja út í þetta.“

Þar að auki telur hann líklegt að ruslið í grasinu sé aðeins toppurinn á ísjakanum, auk þess sem það dugi ekki að einfaldlega taka til á svæðinu, það þurfi úrbætur svo rusl haldi ekki áfram að fjúka.

„Það má alveg reikna með því að þetta sem fast er í grasinu sé brotabrot af því. Það er bara það sem festist í grasinu, hitt fer bara beint út í sjó.“

„Það má alveg reikna með því að þetta sem fast …
„Það má alveg reikna með því að þetta sem fast er í grasinu sé brotabrot af því. Það er bara það sem festist í grasinu, hitt fer bara beint út í sjó.“ mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert