Vaknaði við snjóflóðið brjótast inn um gluggann

Guðrún Sigurðardóttir, býr í Starmýri 17-19 í Neskaupstað.
Guðrún Sigurðardóttir, býr í Starmýri 17-19 í Neskaupstað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég náttúrulega lenti í þessari ömurlegu lífsreynslu,“ segir Guðrún Sigurðardóttir, sem býr í Starmýri 17-19 í Neskaupstað, spurð hvernig líðan hennar sé.

Guðrún býr á annarri hæð og vaknaði við það er snjóflóð braust inn um gluggann hennar á mánudagsmorgun.

Í samtali við mbl.is segist hún aldeilis ekki hafa átt von á flóðinu og að hún sé enn að átta sig á ástandinu. 

„Snjórinn var kominn yfir mig

„Ég vaknaði við þennan dynk sem að kemur á undan trúlega – eða þessi óhljóð,“ segir Guðrún og bætir við að þá hafi flóðið brotist inn um svefnherbergisgluggann hjá henni. 

„Snjórinn var kominn yfir mig,“ segir hún og nefnir að líklega hefði farið verr ef íbúðin væri á jarðhæð. 

Hefur þú upplifað miklar tilfinningasveiflur í kringum þetta?

„Auðvitað, þegar maður sest niður og hugsar til baka þá er það bara eðlilegt – allar þessar tilfinningar. En maður fær góða aðstoð, það er ekki spurning,“ segir hún og á við áfallahjálpina sem Rauði krossinn hefur veitt í Egilsbúð. 

Hún segir samhug og samkennd bæjarbúa einnig ólýsanlega. „Það er bara eins og þetta sé ein fjölskylda. Það eru allir alveg dásamlegir.“

mbl.is