Vantraust tekið fyrir strax í fyrramálið

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra.
Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra. mbl.is/Hákon

Vantrausttillaga fjögurra flokka stjórnarandstöðu gegn Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra verður tekin á dagskrá Alþingis í fyrramálið kl. 10.30.

Gert er ráð fyrir að umræða um tillöguna standi í rúma tvo tíma, en að henni lokinni fer fram einföld atkvæðagreiðsla um hana.

Viðbúið er að auk eiginlegra umræðna verði mikið um ræður „um atkvæðagreiðslu“ og skýringar á atkvæði þingmanna í nafnakalli. Ekki er því óvarlegt að gera ráð fyrir því að vantraustsstilagan standi fram eftir degi og lítið annað gert í þinginu þann daginn. Dagskrá þingsins riðlast því nokkuð af þeim sökum.

Vantraust vegna upplýsingagjafar

Þingflokksformenn Flokks fólksins, Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar lögðu fyrr í dag fram vantrauststillögu á hendur Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra. Telja þingflokkarnir að Jón hafi brotið lög þegar hann breytti því hvernig umsóknir um ríkisborgararétt eru afgreiddar hjá Útlendingastofnun og hvenær og hversu ítarlegar upplýsingar berast þinginu vegna sérstakra umsókna um ríkisborgararétt, sem fjallað er um af Alþingi.

Að mati stjórnarandstöðunnar er þar gengið á svig við þingsköp, lög og stjórnarskrá og mikilvægt að þingið spyrni fótunum við framferði framkvæmdavaldsins um það.

Jón Gunnarssom telur sig engin lög hafa brotið og segir alrangt að hann hafi haldið upplýsingum frá Alþingi.

Bryndís Haraldsdóttir, formaður Allsherjar- og menntamálanefndar, tók til máls í sömu umræðu og sagði að Útlendingastofnun hefði aldrei neitað þinginu um gögn sem fyrirliggja í málinu. Hins vegar væri ágreiningur um hve hratt eða í hvaða forgangsröð Útlendingastofnun ætti að vinna umsagnir um umsóknir.

Útlendingamálin eru eldfimt umræðuefni á Alþingi sem víðar, en þessi vantraustsumræða kann að reynast tæknilegri um lög og langa ganga stjórnsýslunnar en ætla mætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert