„Við förum í þetta verkefni saman“

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar segir íbúa takast á við …
Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar segir íbúa takast á við atburðina af æðruleysi. Myndin er samsett. Fjarðabyggð, mbl.is/Eggert

Bæjarstjóri Fjarðabyggðar segir aðgerðarstjórn hafa þó nokkrar áhyggjur af veðrinu sem brátt færist yfir svæðið en gluggi hafi nú myndast til þess að koma vistum og slíku á áfangastað. Þó verði sjóleiðin áfram opin ef allt fer á versta veg. Samfélagið hafi tekið höndum saman og fáist nú við þetta stóra verkefni af æðruleysi.

„Hér er fólki auðvitað brugðið en engu að síður heilt yfir góð samstaða. Við erum að takast á við þetta verkefni öll saman,“ segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar. Hann nefnir að ómetanlegt hafi verið að finna fyrir stuðningi fólks og eljusemi almannavarna.

Hann segir afléttingu rýmingaráætlana vissulega hafa létt á fjöldahjálparstöð en að fáir hafi gist þar.

„Við komum öllum fyrir á mánudag. Rauði krossinn í samstarfi við Fjarðabyggð tókst á við það og við komum öllum í gistingu. Við nýttum hér bæði hótel og heimavist verkmenntaskólans,“ segir Jón Björn. Hann geri þó ráð fyrir því að möguleiki sé á því að farið verði í rýmingu í dag.

Hættan minnki ekki með vondu veðri

Hann segir veðurspánni tekið af fullri alvöru. Bærinn eigi í góðu samstarfi við Veðurstofuna.

„Eins og spáin lítur út núna þá er þetta töluverð úrkoma þannig það verður bara að fylgjast vel með. Fyrir er hætta og þetta mun þá náttúrulega ekki minnka hana og við verðum bara að sjá hvernig það þróast,“ segir Jón Björn.

Spurður hvers sé gripið til komist vistir ekki leiðar sinnar á landi segir hann flutninga á sjó vera möguleika.

„Við erum svo heppin að varðskipið Þór kom til okkar í næturbyrjun með fólk og aðföng. [Skipið] kom í Norðfjörð og fór síðan til Eskifjarðar og er þar. Gæslan hefur svo sem sagt það að ef ekkert annað kalli verður Þór hér á meðan að við sjáum hvernig þetta fer allt saman. Þá eigum við náttúrulega þennan möguleika með flutninga á sjó frá Eskifirði og hingað yfir,“ segir Jón Björn.

Lítið annað sé hægt en að fylgjast með veðrinu og taka stöðuna.

Finnur fyrir samhug

Þegar því er velt upp hversu jákvætt og yfirvegað fólkið á svæðinu virðist vera eftir flóðin segir Jón íbúa taka höndum saman.

„Hér er afskaplega gott samfélag eins og annars staðar á landinu og þegar að á bjátar þá auðvitað tökumst við á við þetta saman og af miklu æðruleysi. Mér fannst það á mánudag, bæði þegar ég fór í fjöldahjálparstöðina og hitti fólk eftir að það komu sem flestir þangað, að fólk tekur þessu af miklu æðruleysi.

Við förum í þetta verkefni saman, ég held líka að fólk finni þennan mikla samhug sem við höfum. [...] Við erum með gott samfélag sem stendur hér saman að þessu, bæði hér á Norðfirði og eins í Fjarðabyggð og á Austurlandi. Við erum í þessu verkefni sem við tökumst á við öll sem eitt og förum í gegnum,“ segir Jón Björn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert