Áhugasamur um nasisma og kommúnisma

Magnús Aron Magnússon er ákærður fyrir manndráp.
Magnús Aron Magnússon er ákærður fyrir manndráp. mbl.is/Arnþór

Geðlæknir sem kom að máli Magnúsar Arons Magnússonar, sem ákærður er fyrir að hafa orðið Gylfa Bergmann Heimissyni að bana í Barðavogi í júní á síðasta ári, segir Magnús hafa haft mikinn áhuga á seinni heimstyrjöldinni, kommúnisma og nasisma. 

Segir hann að úr samtölum sínum við hann og fjölskyldu hans hafa greint áhuga á bæði kynþáttafordómum og kvenfyrirlitningu. 

Tómas Zoëga geðlæknir gaf skýrslu í Barðavogsmálinu svokallaða í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. 

Rekinn úr unglingavinnunni

Tómas hitti ákærða fyrst 6. júní, tveimur dögum eftir að atvikið átti sér stað, og kom svo síðar einnig að geðmati á ákærða. 

Í samantekt um greinargerð sína um ákærða segir Tómas að Magnús hafi verið sérkennilegur í háttum og strax minnt hann á einstakling með einhverfu. Í sögu hans hafi komið fram að hann hafi hitt sálfræðing á vegum félagsþjónustunnar þegar hann var tólf ára. Sálfræðingurinn mat það svo að Magnús þyrfti á frekari aðstoð að halda og mælti með að hann myndi sækja hana hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítala. 

Faðir ákærða hafi komið í veg fyrir það. Á unglingsárum Magnúsar hefðu foreldrar hans skilið og átt í heiftúðlegum deilum um forræði yfir honum. 

Þegar hann var í unglingavinnu hafi hann lent upp á kant og verið rekinn þaðan. Hann hafi ekki stundað vinnu síðan. Tómas segir samskipti Magnúsar hafa verið óeðlileg, sérstaklega á seinni hluta grunnskólagöngunnar. 

Hann sé bærilega vel greindur og hafi gengið vel í skóla framan af grunnskóla, þó ekki hafi hann eignast vini. 

Vantað töluvert upp á eðlilegt líf

Í viðtölum við ákærða hafi alltaf verið tveir til þrír fangaverðir til taks því hann upplifði sig ekki öruggann í návist hans. „Það var óþægi­legt að tala við hann. Hann var hálfógn­andi. Kom með sér­kenni­leg komm­ent, en ekki tengd rang­hug­mynd­um eða slíku,“ sagði Tómas. 

Hann sagði vanta töluvert upp á að Magnús lifði eðlilegu lífi. Hann byggi heima hjá móður sinni, en að þau töluðust lítið við. Magnús væri vakandi á nóttunni og gengi um borgina á nóttunni. 

Hann ætti enga vini, nema tvo tölvuvini búsetta í Bandaríkjunum og Kanada. Þá væri hann tortrygginn að eðlisfari, en hvorki með alvarlegar paranojuhugmyndir á grunni geðrofshugmynda né með ranghugmyndir. 

„Hann var upp­tek­inn af komm­ún­isma, nas­isma, kynþátta­for­dóm­um sem fór dá­lítið út í öfg­ar,“ sagði Tómas. 

Miður að Magnús hafi ekki fengið hjálp

Hann sagði miður að Magnús hefði ekki fengið aðstoð sem barn, og á unglingsárum hefði honum ekki heldur verið veitt aðstoð og í raun komið í veg fyrir slíkt. Hann benti einnig á að Magnús hefði á seinni árum ekki sóst sjálfur eftir því. Sennilega hafi hann ekki haft innsýn inn í eigin vandamál eða áttað sig á að hann glímdi við vanda. 

Spurður af hverju Magnús hefði brugðist við eins og hann gerði kvöldið örlagaríka í júní 2022 sagð hann líklegt að eitthvað hefði raskað ró Magnúsar, líklegast að móðir hans væri ekki heima. 

Móðir hans hafði fengið hjartaáfall tveimur dögum áður og var lögð inn á spítala. Þar lá hún og var í aðgerð þegar atvikið átti sér stað. Magnús hafi ekki verið vanur að vera einn heima, og ekki svo lengi. Hann hafi því mögulega verið kvíðinn og stressaður. 

mbl.is