„Bara óheppni að Indó lendir í þessu“

„Við vorum að slökkva á henni í gær þannig þetta …
„Við vorum að slökkva á henni í gær þannig þetta eru ákveðin hliðaráhrif af því,“ segir Ragnhildur í samtali við mbl.is og bætir við að um hafi verið að ræða lokahnikkinn í margra ára verkefni. Samsett/Aðsend/Eggert Jóhannesson

Reiknistofa bankanna segir það óheppni að sparisjóðurinn Indó hafi lent í bilun vegna uppfærslu hjá þeim en millifærslur sparisjóðsins Indó lágu niðri um skeið í gærkvöldi.

Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri RB, segir að um hafi verið að ræða útleiðingu á stórtölvu, eða „mainframe“, sem hefur verið gruntölvuumhverfi Reiknistofu bankanna síðustu 50 árin.

„Við vorum að slökkva á henni í gær þannig þetta eru ákveðin hliðaráhrif af því,“ segir Ragnhildur í samtali við mbl.is og bætir við að um hafi verið að ræða lokahnykkinn í margra ára verkefni.

„Það var lokapunkturinn í gær, og þetta eru hnökrar í kring um það, en það er búið að koma þessu í lag. Þetta tengist ekkert Indó og liggur hjá okkur í RB. Við áttum von á að eitthvað gæti komið upp en sem betur fer voru ekki margir sem lentu í þessum vandræðum.“

Reiknistofa bankanna stendur í útleiðingu á gömlu tölvukerfi.
Reiknistofa bankanna stendur í útleiðingu á gömlu tölvukerfi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tengist ekki fyrri mistökum

Aðspurð neitar hún að atvikið tengist því sem uppgötvaðist fyrr í mánuðinum, þegar RB afhenti gögn um fjárhagsfærslur viðskiptavina Indó til Kviku banka og ekki heldur því hversu nýir Indó eru á markaðnum.

„Þetta er bara tilviljun,“ segir hún og kveðst harma að bæði atvikin hafi tengst sparisjóðnum nýja. „Bara óheppni að Indó lendir í þessu.“

Segir hún að meðan endapunkturinn í útleiðingunni hafi verið í gær sé örlítill möguleiki á frekari hnökrum fyrir hendi, þó sáralítill. „Það getur alls konar gerst í svona stórum verkefnum.“

Og voru Indó-liðar þolinmóðir?

„Jú, ég held að allir hafi sýnt þessu skilning, enda var þetta svolítið seint í gærkvöldi. En við auðvitað hörmum þetta og þykir það auðvitað leitt að Indó skuli lenda í þessu aftur. Þetta hefur ekkert með Indó að gera.“

mbl.is