Dæmdur fyrir tilraun til manndráps á nýársnótt

mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í 3,5 árs fangelsi fyrir tilraun til manndráps á nýársnótt fyrir þremur árum í Reykjanesbæ. Alls voru fjórir menn ákærðir í málinu. Einn þeirra var dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi á meðan hinir tveir voru sýknaðir. 

Héraðssaksóknari höfðaði málið á hendur mönnunum 17. nóvember þar sem A, sem hlaut þyngsta dóminn, var ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa ítrekað lagt til X með vasahníf með 6,3 sm löngu blaði, sem A hafði í vörslum sínum. Það hafði þær afleiðingar að X hlaut samtals fimm stunguáverka, þar af einn sem náði inni í kviðarhol og í gegnum milta svo fjarlægja þurfti miltað og annan sem olli loftbrjósti.

Allir mennirnir voru að auki ákærðir fyrir sérstaklega hættulegar líkamsárásir. í tengslum við slagsmál sem brutust út umrædda nótt. Er ann­ars veg­ar um að ræða tvo menn um fer­tugt og tvo menn sem eru rúm­lega tví­tug­ir.

Metinn sakhæfur

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 20. mars en var birtur í dag, að geðrannsókn hafi verið framkvæmd á A og niðurstaða hennar var sú að ekkert benti til þess að hann hefði verið ófær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu. Þá gæti ekkert læknisfræðilegt komið í veg fyrir að refsing kynni að bera árangur. Hann var því metinn sakhæfur. 

Maðurinn hélt því fram að stunguárásin hefði helgast af neyðarvörn í kjölfar átaka. Þessu hafnaði héraðsdómur.

Skeytti engu um það hvar stungurnar lentu

„Eins og fram er komið stakk ákærði A ákærða X endurtekið með hníf og virðist engu hafa skeytt um það hvar í líkama ákærða X stungurnar lentu. Ein stungan lenti í milta ákærða X og hlaut hann við það lífshættulegan áverka. Verður að telja að ákærða A hafi á verknaðarstundu ekki getað dulist að langlíklegast væri að bani hlytist af atlögunni sem var fólskuleg,“ segir í dómi héraðsdóms. 

Maðurinn sem hlaut fimm mánaða skilorðsbundinn dóm var sakfelldur fyrir líkamsárás og var hann jafnframt dæmdur til að greiða einum manni 300.000 kr. í bætur og 250.000 kr. í málskostnað.

Maðurinn sem var dæmdur í fangelsi fyrir tilraun til manndráp var einnig dæmdur til að greiða einum mannanna 2,6 milljónir í bætur auk 400.000 kr. í málskostnað.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert