Þó að almennt hafi fumlaus viðbrögð einkennt starf björgunarsveitarmanna í Neskaupstað í kjölfar snjóflóðsins í bænum á mánudag gleymdist að koma einum íbúa í öruggt skjól.
„Þeir gleymdu mér í þrjá tíma,“ segir Sigríður Wium og hlær við. Hún er íbúi í einni af þeim götum sem rýmdar voru eftir að snjóflóðið féll.
„Ég var ekkert hrædd. Var bara að dunda mér inni í stofu,“ segir Sigríður.
Og hvað varstu að gera?
„Ég var bara að fá mér harðfisk,“ segir Sigríður sposk á svip áður en hún skellir upp úr.
„En svo þegar karlinn hringdi utan af sjó þá skipaði hann mér að hringja og láta vita af mér,“ segir hún.
Þannig að þú vildir bara vera heima?
„Já en karlinn var ekki til í það,“ segir Sigríður.
En hvað tekur svo við?
„Við þurfum að fá að moka upp bílinn. Við þurfum að komast í fermingu,“ segir Sigríður áður en hún rýkur á brott.