Fjölfarin gatnamót endurbætt

Afmörkun göngugötusvæðis verður gerð skýrari.
Afmörkun göngugötusvæðis verður gerð skýrari. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Strax eftir páska hefjast endurbætur á gatnamótum Laugavegar og Frakkastígs. Mikil umferð er um þessi gatnamót, bæði bíla og gangandi fólks, ekki síst erlendra ferðamanna. Fram undan er sumarið, þegar erlendir ferðamenn fjölmenna á Laugaveginn.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að með þessum framkvæmdum verði afmörkun göngugötusvæðis gerð skýrari. Götukantar verða endurgerðir og yfirborð hellulagt. Framkvæmdin felst eingöngu í yfirborði götunnar en ekki er um lagnavinnu að ræða. Gatan verður þrengd meðan á vinnu stendur.

Núverandi grásteinskantur verður meðal annars tekinn upp að hluta og lagður aftur þvert yfir Laugaveg, meðfram gatnamótum Frakkastígs. Svæðið fær yfirbragð göngugötu. Einnig verður aukið svæði til útiveitinga en mikinn fjölda veitingastaða er að finna í þessum hluta miðbæjarins.

Fram kemur í tilkynningunni að verktakinn, Garðyrkjuþjónustan ehf., afmarki vinnusvæðið og gæti að öryggi vegfarenda. Þrjú tilboð bárust í verkið þegar það var boðið út í fyrra. Garðaþjónustan bauð lægst, 40,6 milljónir króna. Lóðaþjónustan ehf. bauð 46 milljónir og Stéttafélagið ehf. 48,4 milljónir. Kostnaðaráætlun verksins var 34 milljónir.

Áætlaður framkvæmdatími er um átta vikur. Í tilkynningu á heimasíðu Reykjavíkurborgar kemur fram að aðgengi „virkra ferðamáta“ verði tryggt á framkvæmdatímanum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert