Íslandsvinahópur þingmanna stofnaður í Washington D.C.

Bandarísku þingmennirnir ásamt Bjarna Jónssyni, formanni utanríkismálanefndar og Bergdísi Ellertsdóttur, …
Bandarísku þingmennirnir ásamt Bjarna Jónssyni, formanni utanríkismálanefndar og Bergdísi Ellertsdóttur, sendiherra Íslands í Washington. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Tengsl fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og Alþingis voru styrkt á formlegan máta í dag með stofnun sérstaks „Íslandsvinahóps“ (e. Iceland Caucus).

Utanríkisnefnd Alþingis hefur verið í heimsókn í Washington D.C. síðustu daga og var því viðstödd þegar vinasambandið var staðfest. Í forsvari fyrir fulltrúadeild Bandaríkjaþings voru þingkona Demókrataflokksins, Chellie Pingree frá Maine og þingmaður Repúblikanaflokksins, Greg Murphy, frá Norður Karólínu.

Bandarísku þingmennirnir og meðlimir utanríkismálanefndar Alþingis.
Bandarísku þingmennirnir og meðlimir utanríkismálanefndar Alþingis. Ljósmynd/Stjórnarráðið

„Tilgangur vinahópa á Bandaríkjaþingi felst einkum í því að skapa óformlegan samstarfsvettvang fyrir hóp þingmanna sem láta sig varða sérstaka málaflokka eða vináttu við tiltekin ríki. Skrá þarf hópa af þessu tagi til stjórnarnefndar fulltrúadeildarinnar og þurfa tilteknir þingmenn að gangast í ábyrgð fyrir þá,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Utanríkisráðherra Íslands, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir segist fagna stofnun hópsins en hún sýni viðmótiðm í höfuðborg Bandaríkjanna gagnvart Íslandi. Hópurinn gæti komið sér vel fyrir Ísland hvað varðar hagsmunagæslu í Bandaríkjunum.

mbl.is