Kannski „að ætla okkur of mikið á of skömmum tíma“

Bjarni Benendiktsson kynnir fjármálaáætlun fyrr í dag.
Bjarni Benendiktsson kynnir fjármálaáætlun fyrr í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að kannski hafi menn ætlað sér of mikið á skömmum tíma með samgöngusáttmálann. Hann telur að teygja þurfi eitthvað á tímalínu verkefnisins, en það er nú til endurskoðunar.

Samgöngusáttmálinn er eitt af stærri fjárfestingaverkefnum ríkisins um þessar mundir, en þar undir eru meðal annars viðamiklar framkvæmdir við stofnbrautir á höfuðborgarsvæðinu, uppbygging göngu- og reiðhjólastíga sem og borgarlínuverkefnið.

Fram hefur komið í máli bæjarstjóra á höfuðborgarsvæðinu að sáttmálinn sé nú til endurskoðunar innan Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Ásdís Kristjáns­dótt­ir, bæj­ar­stjóri Kópa­vogs, sagði í aðsendri grein í Morgunblaðinu í febrúar að framkvæmdaáætlun sáttmálans væri nú komin 50 milljörðum fram úr áætlun. Davíð Þor­láks­son, fram­kvæmda­stjóri hjá Betri sam­göng­um, hefur bent á að stærsti hluti þessara tölu sé tilkominn vegna verðlagsbreytinga og auðvitað verði að uppfæra það. Þá séu nýjustu áætlanir vegna stofnvega fyrir bíla nú um 17 milljörðum umfram upphaflegar áætlanir, en þar sé aðallega um að ræða uppfærða áætlun vegna Sæbrautarstokks.

Spurður um stöðu sáttmálans núna í ljósi nýrrar fjármálaáætlunar segir Bjarni: „Hann er í raun núna til endurskoðunar og uppfærslu næstu mánuðina. Við þurfum að sjá hvernig spilast úr því. Mig grunar að við munum eitthvað þurfa að teygja á tímalínunni og hugsa fjármögnun upp á nýtt. Kannski vorum við að ætla okkur of mikið á of skömmum tíma, en þetta mun koma í ljós.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert