Óljóst hvenær fólk getur snúið heim

Sveinn Zoëga segir hans fólk nú stökkva í þau verkefni …
Sveinn Zoëga segir hans fólk nú stökkva í þau verkefni sem sinna þurfi á snjóflóðasvæðinu en ekki sé ljóst enn sem komið er hvenær fólk, sem rýma þurfti heimili sín, geti snúið heim á ný. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það voru engin verkefni í nótt og ekkert nýtt að frétta þannig séð, hér snjóar bara eins og þú sérð,“ segir Sveinn Zoëga, sem sæti á í vettvangs- og aðgerðastjórn á staðnum á vettvangi snjóflóðanna í Neskaupstað þar sem blaðamaður er staddur.

Segir Sveinn snjóflóðahættu enn vera til staðar en hans fólk hafi ekki orðið vart við að neitt hafi fallið í nótt, „reyndar var eitt [snjóflóð] sem féll í Oddsskarði seint í gær en menn sjá svo sem ekki mikið til fjalla núna í þessari úrkomu“, heldur hann áfram en töluverð snjókoma er á svæðinu um þessar mundir.

Björgunarsveitarmenn skoða myndskeið frá eftirlitsdróna til að glöggva sig á …
Björgunarsveitarmenn skoða myndskeið frá eftirlitsdróna til að glöggva sig á aðstæðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hætta á krapaflóðum eykst

„Nú stökkva menn bara klárir í hvað sem er, seinustu verkefni á rýmingarsvæðum og annað. Hluti bæjarins var rýmdur og kannski detta inn einhver minni verkefni,“ svarar Sveinn, spurður út í hvað nú sé fram undan hjá björgunarsveitarfólki. Ekki sé ljóst enn sem komið er hvenær fólk, búsett á rýmingarsvæðum, geti snúið til síns heima en Sveinn bendir á að þær upplýsingar hafi verið gefnar út að rýmingin gæti verið í gildi fram að helgi.

Tækni nútímans jafnar óneitanlega stöðu mannskepnunnar gagnvart náttúruöflunum. Dróni reiðubúinn …
Tækni nútímans jafnar óneitanlega stöðu mannskepnunnar gagnvart náttúruöflunum. Dróni reiðubúinn til eftirlitsflugs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þá er morgundagurinn undir í því og við erum með þessa miklu úrkomuspá fram að helgi,“ segir Sveinn að lokum.

Menn voru með dróna að taka myndir af fjallinu og virtist sem litlar áhyggjur væru af frekari snjóflóðum. Hins vegar eru aðstæður sem stendur í Neskaupstað þannig að það er fremur blautt og slydda og vegna snjómagns eykst hætta á krapaflóðum. Ekki er þó svo að menn virðist hafa miklar áhyggjur.

Hreinsað frá niðurföllum sem fljótt teppast af ís og krapa …
Hreinsað frá niðurföllum sem fljótt teppast af ís og krapa við þær aðstæður sem nú ríkja. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert