Sýnt framfarir í fangelsinu

Magnús Aron Magnússon í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Magnús Aron Magnússon í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Arnþór

Ein af þeim lykilspurningum sem reynt var að svara í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag var hvort refsing myndi bera árangur í tilfelli Magnúsar Arons Magnússonar. Magnús er ákærður fyrir að hafa orðið Gylfa Bergmann Heimissyni að bana hinn 4. júní á síðasta ári. 

Þrír geðlæknar gáfu skýrslu í aðalmeðferð málsins í dag. Allir þrír voru þeir sammála um að refsing myndi bera árangur því Magnús hafi strax sýnt framfarir í gæsluvarðhaldi, en hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því hann var handtekinn. 

Refsing kynni að bera árangur

Tómas Zoëga geðlæknir segist í fyrstu hafa talið að refsing myndi ekki bera árangur í tilviki Magnúsar, hann væri með alvarlegan geðsjúkdóm. Annað hafi komið á daginn og að mati hans væri hann sennilega einhverfur og með persónuleikaröskun sem hafi þróast yfir mörg ár.

Nú telur hann að Magnús myndi ekki eiga erfitt uppdráttar innan fangelsisins. Ef sök sannist í málinu sé ekkert sem stendur í vegi fyrir því að refsing kynni að bera árangur.

Ekki greindur með einhverfu

Geðlæknarnir voru allir þrír sammála að um að Magnús væri að öllum líkindum einhverfur, á einhverfurófi eða með væga einhverfu. Hann sýndi merki um bæði dæmigerða og ódæmigerða einhverfu. 

Þá kom persónuleikaröskun einnig til tals og að Magnús hafi mögulega, vegna aðstæðna í æsku og uppeldi, þróað með sér persónuleikaröskun. 

Magnús hefur ekki verið greindur með einhverfu, enda ekki hlutverk dómskvaddra geðlækna að sinna slíku greiningarferli. Það tæki lengri tíma og krefðist fleiri viðtala við ákærða.

Ljóst væri hins vegar að hann glímdi við geðrænan vanda þrátt fyrir að vera metinn sakhæfur. Allir geðlæknarnir voru sammála um það að refsing kynni að bera árangur ef rétt væri staðið að málum og Magnús fengi aðstoð. 

Aðstoðin sem hann þarf væri þó mikil og flókin.

Með skýran ramma í fangelsinu

Nanna Briem geðlæknir bar einnig vitni en hún, ásamt Láru Björgvinsdóttur geðlækni, hitti Magnús fjórum sinnum yfir þriggja mánaða tímabil á meðan hann var í gæsluvarðhaldi á Hólmsheiði. 

Nanna og Lára sögðu báðar að það væri áberandi hversu mikið líðan hans skánaði við vistina á Hólmsheiði. Honum liði vissulega illa yfir því sem gerðist, en honum liði eins vel og hægt er að líða í slíkum aðstæðum. 

Í fangelsinu væri hann með skýran ramma og hann hafi beðið um aðstoð frá ættingjum og fangavörðum um hvernig hann ætti að takast á við hinar ýmsu aðstæður. 

Nanna sagði að fangelsi væri staður sem hann gæti þrifist á. Á sama tíma teldu þær Lára að hann gæti náð meiri árangri ef hann fær ákveðinn stuðning innan fangelsisins. Það þyrfti að vera sálfræðiaðstoð sem tæki inn í reikninginn að hann væri með einhverfu. 

Spurð hversu mikla aðstoð þyrfti að veita Magnúsi innan veggja fangelsisins taldi Nanna að vikulegir tímar hjá sálfræðingi væru góð byrjun. Hún segði að vinna þyrfti með félagslega færni hans og samskipti. 

Hún sagði enn fremur mikilvægt að hafa í huga að hann hafi aldrei fengið þá aðstoð sem hann sannarlega hefur þurft. Þjónustan sem hann þyrfti væri svipuð og göngudeild geðdeildar myndi veita.

Iðrun eða eftirsjá?

Ákæruvaldið spurði einnig geðlæknana hvort þeir hafi greint hjá Magnúsi iðrun, eftirsjá eða samkennd. Töldu Nanna og Lára sig hafa greint hana í orðræðu Magnúsar, bæði þegar þær spurðu hann beint, og í öðrum samræðum. 

Nanna sagði hann velta fyrir sér hvaða áhrif þetta hefði á aðstandendur Gylfa, en samhliða því velta fyrir sér hvaða afleiðingar þetta myndi hafa fyrir hann sjálfan. 

Þá segir hún hann einnig hafa sagt að hann hafi ekki ætlað sér að gera þetta, þetta hafi ekki farið eins og hann hafi lagt upp með. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert