Valdi rangan getraunaseðil og vann

Konan styður Keflavík eins og þessir fjallhressu menn á myndinni.
Konan styður Keflavík eins og þessir fjallhressu menn á myndinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Seinheppni íslensks tippara þróaðist út í heppni þegar úrslitin lágu fyrir eftir knattspyrnulandsleikina í Undankeppni EM karla í vikunni. 

Tippari sem styður knattspyrnudeildina í Keflavík náði sér í appið hjá Íslenskri getspá og keypti sér í framhaldinu getraunaseðil þar sem notast var við sjálfval. Tipparinn taldi sig hafa keypt miða sem gildir næsta laugardag þegar enska knattspyrnan fer aftur af stað eftir landsleikjahlé. 

Reyndist það misskilningur því seðillinn gilti fyrir landsleikina í vikunni eða svokallaðan evrópskan getraunaseðil þar sem úrslit lágu fyrir í gær. 

Sjálfval er kannski ekki verra en hvað annað því tipparinn var með  tólf leiki rétta af þrettán á seðlinum og fékk rúmar 3 skattfrjálsar milljónir í sinn hlut samkvæmt tilkynningu frá Íslenskri getspá. Enginn var með þrettán rétta að þessu sinni. 

Þar kemur jafnframt fram að vinningshafinn sé einstæð móðir og hafi keypt miðann fyrir 832 krónur. Eftir henni er haft að hún geti nýtt fjárhæðina til að greiða niður skuldir og gera eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni. 

mbl.is