Vilja að nauðsynlegum rannsóknum ljúki

Siglufjarðarvegur er oft lokaður vegna skriðufalla.
Siglufjarðarvegur er oft lokaður vegna skriðufalla. mbl.is/Sigurður Ægisson

Fullljóst er að framtíðarvegtenging frá Siglufirði í vesturátt verður best tryggð með gerð jarðganga milli Siglufjarðar og Fljóta. Þetta segir í þingsályktunartillögu 18 þingmanna sem hefur verið lögð fyrir Alþingi.

Flutningsmenn tillögunnar eru þingmenn úr fimm flokkum en hún kveður á um að fela eigi innviðaráðherra að fela Vegagerðinni að ljúka nauðsynlegum rannsóknum vegna gerðar vegganga fyrir þjóðveg milli Siglufjarðar og Fljóta, hanna slíkt mannvirki og leggja mat á kostnað við gerð þess. Ráðherra leggi skýrslu með niðurstöðum rannsókna og kostnaðarmati fyrir Alþingi fyrir árslok 2023.

„Þingsályktunartillaga þessi er efnislega samhljóða þeirri sem lögð var fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi (þskj. 1206, 737. mál) af Kristjáni Möller og tólf öðrum þingmönnum og þeirri sem lögð var fram á 151. löggjafarþingi (þskj. 1716, 861. mál). Málið hefur ekki orðið útrætt og þar sem tilefni þess og forsendur eru hinar sömu og þegar það var fyrst sett á dagskrá er þingsályktunartillaga um jarðgöng vegna vegagerðar milli Siglufjarðar og Fljóta nú endurflutt með nokkrum breytingum á greinargerð, til að mynda nýjum kafla um ályktun bæjarstjórnar Fjallabyggðar,“ segir í tillögunni.

Umferð stóraukist

Í greinargerð tillögunnar er m.a. vísað til þess að umferð hafi stóraukist um Siglufjörð með tilkomu Héðinsfjarðarganga, sífellt jarðsig sé á Siglufjarðarvegi um Almenninga, mjög tíð aur- og snjóflóð falli út frá Siglufirði að Strákagöngum, auk þess sem að lokanir á Siglufjarðarvegi frá Ketilási til Siglufjarðar hafi aukist.

Þá er tekið fram að með nýjum jarðgöngum styttist vegalengdin milli Siglufjarðar og Fljóta um 16 km

Dæmi tekin um áhrif til styttingar eru:

     *      Leiðin Reykjavík–Siglufjörður er 386 km en yrði 370 km.
     *      Leiðin Reykjavík–Ólafsfjörður er 429 km um Öxnadal og 403 km um Siglufjörð en yrði 387 km um ný göng.
     *      Leiðin Sauðárkrókur–Siglufjörður er 90 km en yrði 74 km.
     *      Leiðin Reykjavík–Dalvík er 412 km um Öxnadal og 420 km um Siglufjörð en verður 404 km með nýjum göngum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert