Bifreið festist í krapaflóði á Fáskrúðsfirði

Appelsínugular og gular viðvaranir verða í gildi á Austfjörðum í …
Appelsínugular og gular viðvaranir verða í gildi á Austfjörðum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bifreið festist í krapaflóði á Fáskrúðsfirði í nótt en vonskuveður hefur verið á Austurlandi, sem kunnugt er, undanfarna daga.

Appelsínugul veðurviðvörun gildir á Austfjörðum til klukkan 9 í dag. Búast má við mikilli rigningu og hlýnandi veðri sunnantil á svæðinu, asahláku, auknu afrennsli og vatnavöxtum.

Búast má við talsverðri eða mikilli snjókomu eða skafrenningi með þungri færð og lélegu skyggni, einkum norðantil á svæðinu og miklar líkur eru á samgöngutruflunum.

Gul veðurviðvörun verður í gildi frá klukkan 9 í dag og fram að miðnætti. Þá má búast við talsverðri rigningu og hlýnandi veðri, sunnantil á svæðinu fram á föstudagsmorgun en á öllu svæðinu eftir það. Búast má við asahláku, auknu afrennsli og vatnavöxtum.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is