„Grét yfir lauknum í morgun“

Guðröður Hákonarson á Hildibrand hótel ásamt syni sínum.
Guðröður Hákonarson á Hildibrand hótel ásamt syni sínum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðröður Hákonarson, hóteleigandi á Hildibrand hótel, kokkur og bóndi hefur staðið í ströngu frá því snjóflóð féllu í Neskaupstað á mánudagsmorgun. Á hverjum degi koma 140-250 manns og hafa borðað frítt í hádeginu og á kvöldin og stendur öllum bæjarbúum til boða að koma á hótelið til að snæða. 

Eiga nægan mat

Guðröður hefur vaknað 7 á morgnana alla vikuna og strax hafist handa við að undirbúa mat. 

„Ég grét yfir lauknum sem ég var að skera í morgun,“ segir Guðröður kíminn. „En við eigum nógan mat og við gefum mat þangað til þessu ástandi lýkur. Í hádeginu eru að koma um 140 manns en í gærkvöldi þegar rýming var víðtækari voru 250 manns hérna,“ segir Guðröður.  

Lögreglumaður með dýnu fyrir utan Egilsbúð þar sem fjöldahjálparmiðstöðin var …
Lögreglumaður með dýnu fyrir utan Egilsbúð þar sem fjöldahjálparmiðstöðin var hýst. Fer nærri að allir beddar hafi verið nýttir í Neskaupstað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann gerir lítið úr þessu og segir ekkert mál að elda fyrir svo marga. „Starfsfólkið er búið að standa sig ofboðslega vel. Tveir starfsmenn hafa verið lokaðir inni á Eskifirði og Reyðarfirði þannig að við erum færri en venjulega. Þau standa sig eins og herforingjar. Þetta er allt saman erlent fólk og skilja kannski ekki alveg atburðarrásina en halda bara áfram að vinna og gera það sem þarf að gera,“ segir Guðröður. 

Hann segir að flestir hafi tekið á málum af æðruleysi. „Ég hef nú trú á því að seinni partinn í dag muni létta á álaginu,“ segir Guðröður. 

Björgunarsveitin Garðar frá Húsavík nærist á Hildibrand.
Björgunarsveitin Garðar frá Húsavík nærist á Hildibrand. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Seinni tíma úrlausnarefni

Er maturinn greiddur af ríkinu? 

„Rauði krossinn hafði samband við mig og spurði hvort ég treysti mér í þetta og ég sagðist geta það. Ég veit satt besta að segja ekki hvernig það verður. Það er seinni tíma úrlausnarefni. Við sögðumst bara gera það sem við gætum og lengra næði það ekki. Sögðum bara að allir gætu fengið að borða og það er fyrir mestu,“ segir Guðröður.

Svaf á dýnu í matsalnum  

Óhætt er að segja að allir hafi lagst á eitt í Neskaupstað til að láta fólki líða eins vel og hægt er í þeim óvenjulegu aðstæðum sem eru uppi í bænum. Rauði Krossinn hefur haft veg og vanda af því að skipuleggja gistingamál og fer nærri að hver einasti beddi og hver einasta dýna hafi verið nýtt. 

Guðröður svaf á dýnu í matsalnum.
Guðröður svaf á dýnu í matsalnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hóteleigandinn Guðröður veitti sér enga sérmeðferð og eins og sjá má lét hann sér nægja að sofa á dýnu á gólfi inni í matsal á hótelinu. „Ég svaf bara vel. Svolítið stutt en ég svaf vel,“ segir Guðröður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert