Kenndi börnum að vinna sér mein

UMFÍ tók við rekstri skólabúðanna að Reykjum í Hrútafirði í …
UMFÍ tók við rekstri skólabúðanna að Reykjum í Hrútafirði í haust. Ljósmynd/UMFÍ

Leiðbeinanda í Skólabúðunum á Reykjum var sagt upp störfum í síðustu viku eftir að hafa kennt börnum að vinna sér mein í kennslustund.

Vísir greindi fyrst frá.

Nemendur eiga hrós skilið

„Málið komst upp sama dag og atvikið varð og okkar viðbragðsáætlun var sett af stað um leið. Viðkomandi yfirgaf vinnustaðinn samdægurs og hann hefur lokið störfum hjá okkur,“ segir Sigurður Guðmundsson, forstöðumaður skólabúðanna.

„Nemendur eiga hrós skilið fyrir hugrekki að koma fram og láta vita hvað átti sér stað,“ segir hann.

Hafði enga tengingu við námsefnið

Sigurður kveðst ekki geta farið yfir það sem gerðist í tímanum en sagði tímann ekki átt að þróast út í það sem viðkomandi ræddi við nemendur.

„Þetta er tími sem fjallar um Gretti Ásmundarson og hans sögu og persónuleika. Það sem fram fór í þessum tíma hafði enga tengingu við námsefnið.“

Bréf UMFÍ til skólastjórnenda.
Bréf UMFÍ til skólastjórnenda. Ljósmynd/Aðsend

Orðfæri þurfti leiðréttingar við

Áður hefur þurft að ræða við leiðbeinandann um kennsluaðferðir.

„Starfsmaðurinn tók til starfa í haust, þegar við tókum við rekstri skólabúðanna. Áður höfðu komið upp atvik þar sem orðfæri viðkomandi þurfti leiðréttingar við,“ segir Sigurður.

Aðdáunarvert samstarf

Sigurður segir að það eigi eftir að koma í ljós hvort einhverjir hafi hlotið skaða af en að auðvitað séu einhverjir skelkaðir. Hann segir að UMFÍ hafi unnið náið með skólanum sem var í skólabúðunum þegar málið kom upp.

„Verkferlar eru til staðar hjá báðum aðilum og unnið hefur verið faglega úr málinu samkvæmt þeim. Samstarf okkar við skólann hefur verið aðdáunarvert. Hann hefur unnið góða og faglega vinnu. Skólinn setti auðvitað allt sitt af stað,“ segir Sigurður.

UMFÍ er enginn nýgræðingur þegar kemur að rekstri skólabúða en ungmennabúðir hafa verið reknar á Laugarvatni og á Laugum í Sælingsdal um tveggja áratuga skeið. Sigurður segir að aldrei hafi neitt þessu líkt komið upp í tengslum við starfið.

UMFÍ hefur upplýst skólastjórnendur þeirra skóla sem átt hafa hópa sem komið hafa í Skólabúðirnar um stöðuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina