Misnotaði „þroskahömlun hennar á afar grófan hátt“

mbl.is

Karlmaður hefur verið dæmdur í tveggja ára og átta mánaða fangelsi og til að greiða tvær milljónir í miskabætur fyrir að hafa brotið kynferðislega gegn konu með þroskahömlun í tvígang sama dag í júní árið 2021.

Í dómi Héraðsdóms Vesturlands kemur fram að maðurinn hafi í fyrra skiptið lagst við hlið konunnar þar sem hún svaf og káfað á kynfærum hennar innanklæða og stungið fingri í leggögn hennar og látið hana snerta kynfæri sín.

Í seinna skiptið stakk hann fingrum sínum í leggöng konunnar þar sem þau sátu og horfðu á sjónvarp. Maðurinn neitaði sök í málinu.

Brotin áttu sér stað á heimili kærastans

Áttu bæði brotin sér stað á heimili kærasta konunnar þar sem hún og maðurinn voru stödd, en kærastinn og maðurinn voru vinir.

Samkvæmt dóminum áttu bæði brotin sér stað á föstudegi, en í kjölfar þess síðarnefnda sótti starfsmaður á heimili þar sem konan bjó hana. Kemur fram í dóminum að konan hafi í skyndi viljað fara í burtu og svo hringt í kærastann síðar um kvöldið og sagt að vinur hans hafi misnotað sig.

Forstöðukona heimilisins fór með konuna á neyðarmóttöku Landspítalans á mánudaginn þegar hún heyrði af málinu.

Hefur takmarkaðan skilning á verknaðinum

Kom fram í skýrslutökum yfir konunni að í seinna skiptið hafi hún verið upp í sófa hjá kærasta sínum og hann legið á gólfinu en maðurinn sest við hlið hennar og sett teppi yfir þau. Lýsti konan því þannig að maðurinn hafi farið ofan í buxur hennar og káfað á henni og sett fingur sína í leggöng hennar. Taldi hún jafnframt að maðurinn hefði fengið sáðlát vegna lyktar sem var á puttum hennar.

Í mati sálfræðings kom í ljós að konan hefði takmarkaðan skilning á eigin tilfinningum og eigi erfitt með að tjá líðan sína. Þá væri takmarkaður skilningur á verknaðinum og afleiðingum hans og ólíklegt að hún gæti spornað við verknaðinum. Þá lýsti hann því að konan upplifði martraðir eftir atvikin og sagði hún sjálf að hún gæti ekki hætt að sjá andlit mannsins fyrir sér.

Getur ekki séð um sig sjálf

Sagði í skýrslutöku yfir föður konunnar að hún væri illa áttuð og ekki með tímaskyn og gæti ekki séð um sig sjálf. Þá væri konan greindarskert með flogaveiki og hefði fyrir fimm árum fengið heilablæðingu sem hafi valdið frekari skerðingu. Hafði hann enga trú á að hún hefði burði til að bægja neinum frá sér eða verjast.

Maðurinn neitaði sök fyrir dómi, en sagðist hafa verið mjög drukkinn og ekki muna mikið. Var það í andstöðu við fyrri skýrslu hjá lögreglu þar sem hann sagðist muna vel frá deginum. Þá sagðist hann fyrir dómi einnig ekki hafa áhuga á konunni þar sem hún „sé svona náttúrulega sérstök „og þau öll þarna,““ eins og það er orðað í dóminum.

Mundi lítið vegna neyslu

Kærasti konunnar sagðist lítið muna frá þessum tíma vegna neyslu og að hann hafi fyrr um kvöldið drukkið handspritt. Hann mundi þó eftir því að konan hafi hringt í hann seinna um kvöldið hágrátandi eftir að hafa farið snögglega heim. Hafi hún þá sagt honum frá misnotkun vinarins.

Ótrúverðugur framburður mannsins

Fyrir dómi sagðist maðurinn hafa talið konuna öryrkja en ekki með fötlun. Samt tók hann fram fyrir dóminum að hann vissi að vinur sinn væri geðfatlaður líka. Er bent á þetta misræmi í frásögn hans í niðurstöðu dómsins og tekið fram að framburður hans hafi ekki verið trúverðugur.

Hins vegar hafi framburður konunnar verið trúverðugur og ekkert  bendi til þess að hún hafi tekið upp hjá sjálfri sér að segja frá með þessum hætti nema það væri sannleikur að baki. „Gögn málsins benda þvert á móti til þess að einmitt vegna þroskahömlunar, vitrænnar skerðingar og sögu brotaþola, frá bæði sérfræðingum og fólki sem stendur henni nærri um getu hennar, færni og frumkvæði, verði að telja afar ólíklegt og næstum útilokað að brotaþoli hefði borið þær sakir á ákærða sem við blasa, nema vegna þess að hún sé að lýsa því sem raunverulega hafi gerst og hún upplifað,“ segir í dóminum.

Braut gróflega gegn konunni

Segir í dóminum að vafalaust sé að kynferðisleg samskipti hafi átt sér stað á með tilliti til framburðar og út frá gögnum og að konan hafi upplifað að brotið hafi verið á sér. Taldi dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hafi brotið á henni samkvæmt ákærunni og var hann dæmdur samkvæmt því. Væru brot hans alvarleg og hafi beinst gegn andlega fatlaðri konu og hann þar með misnotað sér „þroskahömlun hennar á afar grófan hátt.“ Tekið er fram að hann hafi áður hlotið dóma fyrir húsbrot, eignarspjöll og brot gegn nálgunarbanni.

mbl.is