Sjö ár fyrir brot gegn fimm stúlkum

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karlmaður á sextugsaldri, Brynjar Joensen Creed, hefur verið dæmdur í sjö ára fangelsi í Landsrétti fyrir kynferðisbrot gegn fimm stúlkum á grunnskólaaldri, en með dómi sínum þyngir Landsréttur dóm héraðsdóms um eitt ár. Jafnframt þarf maðurinn að greiða fórnarlömbum sínum samtals 11 milljónir í bætur og um 25 milljónir í málskostnað og lögmannskostnað fyrir báðum dómstigum.

Maðurinn hafði átt í samskiptum við stúlkurnar í gegnum Snapchat samskiptaforritið, þar sem hann fékk þær m.a. til að senda sér kynferðisleg myndskeið auk þess sem hann sendi þeim einnig slík myndskeið. Þá braut hann jafnframt gegn tveimur stúlknanna þegar hann hitti þær.

Grunaður um mun fleiri brot gegn börnum

Brynjar er grunaður um mun fleiri kynferðisbrot gegn börnum, en í lok síðasta árs var greint frá því að rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum á frekari brotum mannsins næði til á þriðja tug grunnskólabarna. Var rannsókn lögreglu þá lokið og búið að senda málin til héraðssaksóknara. Í skýrslutöku yfir lögreglumanni fyrir héraðsdómi í núverandi máli kom fram að Brynjar hefði verið í kynferðislegum samskiptum við um 240 kvenmenn, en þar af hafi tæplega 110 verið undir 18 ára aldri.  Þá væri að finna í símum hans líklega nokkur hundruð kynferðislegar myndir og myndskeið.

Í októ­ber 2021 kærði Barna­vernd­ar­nefnd Hafn­ar­fjarðar mann­inn til lög­reglu. Rann­sókn lög­reglu leiddi til þess að grun­ur féll á ákærða og 5. nóv­em­ber 2021 fékkst heim­ild lög­reglu­stjóra fyr­ir tál­beituaðgerð sem fólst í því að taka yfir síma brotaþola og halda áfram sam­skipt­um við ákærða í gegn­um sam­skiptamiðil­inn Snapchat. Sam­skipt­um við ákærða var haldið áfram 7. nóv­em­ber 2021 en þeim lauk dag­inn eft­ir þegar hann var hand­tek­inn.

07 og 08 kom fram í notendanöfnum

Brynjar játaði hluta brotanna, en neitaði öðrum atriðum. Landsréttur segir atvik málsins hins vegar að stórum hluta vel upplýst meðal annars út frá samskiptum hans við stúlkurnar og myndefni sem haldlagt var á símum og fartölvu Brynjars.

Stúlkurnar voru í öllum tilfellum yngri en 15 ára þegar brotin áttu sér stað og segir Landsréttur ljóst að hann átti að vita aldur þeirra, en í mörgum tilfellum kom fæðingaár þeirra fram í notendanöfnum stúlknanna á Snapchat, t.d. 07 eða 08.

Heyra brotin undir 194. gr. eða 202. gr.?

Í héraðsdómi var maðurinn fundinn sekur um þrjár nauðganir og er það fellt undir 1.mgr. 194. greinar almennra hegningarlaga. Hins vegar eru önnur brot hans, meðal annars þar sem hann fékk stúlkurnar til að taka upp kynferðisleg myndskeið af sér og senda honum talin flokkast undir 2. mgr. 202. greinar laganna. Refsiramminn í fyrri greininni er 1 til 16 ár, en í þeirri seinni allt að 6 ára fangelsi.

Í 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga segir:

  • Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst ekki liggja fyrir ef beitt er ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.

Í 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga segir hins vegar: 

  • Önnur kynferðisleg áreitni en sú sem greinir í 1. mgr. varðar fangelsi allt að [6 árum].

Vildi saksóknari fella brot mannsins þar sem hann beitti ofbeldi, hótun og misneytingu til að fá börnin til að senda sér kynferðislegt efni í gegnum netið undir 194. greinina.

Hugtakið nauðgun víkkað verulega með lögum 2007

Í dómi Landsréttar er vísað til fyrri dómafordæma, meðal annars þar sem maður var sakfelldur fyrir að neyða sambúðarkonu sína með hótunum til samræðis við aðra menn, þrátt fyrir að hann hafi ekki sjálfur verið á staðnum. Einnig hafi verið annað sambærilegt mál frá árinu 2021. Bendir Landsréttur á að með lögum 61/2007 hafi hugtakið nauðgun verið víkkað verulega og það hafi verið markmið laganna. Væri það meðal annars til að auka vernd barna.

Er bent á að í þessu máli séu stúlkurnar að framkvæma kynferðis athafnir vegna þrýstings frá manninum, en hann gaf þeim meðal annars gjafir, áfengi, rafrettur, níkótínpúða, nærföt og kynlífshjálpartæki.

„Kynferðismök fullorðins manns við barn er misnotkun á yfirburðaaðstöðu hans gagnvart barninu og í því felst ofbeldi, hótun og misneyting,“ segir í dóminum og er fallist á með saksóknara að fella umrædd brot undir 194. greinina.

mbl.is