Sjöundi hver karlmaður hummaði í heilt ár

Krabbameinsfélagið hélt í dag málþing á vegum málþing sem bar …
Krabbameinsfélagið hélt í dag málþing á vegum málþing sem bar undirskriftina „Ekki humma fram af þér heilsuna!“

Um 14% karla sem greindust með krabbamein á árunum 2015-2019 fóru ekki til læknis fyrr en rúmlega ári eftir að einkenni gerðu vart við sig. Karlar eru almennt mun líklegri til þess að bíða lengur með að fara til læknis vegna einkenna. Þetta sýna niðurstöður rannsóknar Krabbameinsfélags Íslands.

Í dag, á mottudeginum sjálfum 31. mars, fór fram málþing á vegum Krabbameinsfélags Íslands. Þingið bar yfirskriftina „Ekki humma fram af þér heilsuna!“. Þar flutti Sigríður Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsókna- og skráningarseturs KÍ, erindi um rannsókn á aðdraganda krabbameinsgreiningar.

„Það fyrsta markverða sem kom fram í þessum niðurstöðum var það að 42% þeirra sem greindust með krabbamein voru að leita til læknis vegna þess að það fann fyrir einhverjum einkennum,“ segir Sigríður.

Rannsóknin var gerð á tímabilinu júní 2020 til febrúar 2021. Öllum sem greindust með krabbamein á árunum 2015-2019 var boðið að taka þátt í könnuninni. Þátttökuhlutfall var 49%.

Þriðjungur karla þurfti að leita oftar en tvisvar

Tæp 29% þátttakenda í könnuninni þurftu að leita oftar en einu sinni til læknis vegna einkenna, 26% kvenna og 36% karla.

Sigríður Gunnarsdóttir er forstöðumaður Rannsókna- og skráningarseturs KÍ
Sigríður Gunnarsdóttir er forstöðumaður Rannsókna- og skráningarseturs KÍ

„Þetta hefur verið svolítið mikið í umræðunni undanfarið að fólk hafi leitað ítrekað til læknis og það er eitthvað sem hægt er að gera athugasemdir við,“ segir Sigríður og bætir við að í mörgum tilfellum geti einkenni orsakast af einhverju allt öðru en krabbameini.

„Skilaboðin okkar eru þau að ef einkennin halda áfram og það finnst engin nægileg skýring að fólk sé ekki að gefast upp á að leita sér aðstoðar vegna þeirra,“ segir hún.

Karlar fresta læknisheimsóknum

Rannsóknin leiddi í ljós að 43% kvenna leituðu til læknis innan 14 daga frá því þær urðu fyrst varar við einkenni. Aðeins 24% karla leituðu hins vegar svo fljótt til læknis. Þar að auki sögðust 60% kvenna hafa farið til læknis innan tveggja mánaða frá því að einkenni gerðu vart við sig en aðeins 35% karla.

„Það sem var í þessari rannsókn sem okkur fannst einnig mikilvægt að koma á framfæri var það að karlar eru líklegri en konur til þess að bíða lengi með að leita til læknis.“

14% karla sögðust hafa beðið lengur en heilt ár og 5% kvenna.

„Þetta voru þau gögn sem við notuðum þegar við fórum af stað í þetta átak í mottumars til þess að vekja karla til meðvitundar um það að það skipti miklu máli að bíða ekki með að láta skoða sig ef þeir finna fyrir einkennum.“

Fánalitirnir eru fallegir rétt eins og sokkar Mottumars sem hér …
Fánalitirnir eru fallegir rétt eins og sokkar Mottumars sem hér sjást á fótum forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, þegar verkefnið hófst. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Krabbameinsfélag Íslands hefur þegar birt tvær skýrslur um rannsóknina, annars vegar um aðdraganda krabbameinsgreininga sem hér um ræðir og hins vegar um krabbameinsmeðferðina sjálfa.

Fyrsta skimunin sem stendur karmönnum til boða

Á þessu áru munu skimanir fyrir ristilskrabbameini hefjast og eru það fyrstu krabbameinsskimanirnar af því tagi hér á landi.

„Margir karlar vilja helst bara fá að fara í eitthvað tékk og láta skoða sig eins og bílinn og vita hvort það sé allt í lagi,“ segir Sigríður en bætir við að það sé ekkert endilega mjög hjálplegt. Betra sé að fara í skimanir.

í dag er talið skynsamlegt að skima fyrir þrenns konar krabbameini hjá allri þjóðinni.

Fram að þessu hafa aðeins staðið til boða skimanir fyrir leghálskrabbameini og brjóstakrabbameini hjá konum, en seinni hluta ársins munu hefjast skimanir fyrir ristilkrabbameini.

„Það yrði þá í rauninni fyrsta skimunin sem karlmönnum stendur til boða sem vísindalegur grunnur er fyrir.“ segir Sigríður.

Hvaða einkenni?

Sigríður segir mikilvægt að vera vakandi fyrir ýmsum einkennum, til að mynda óvenjulegum blæðingum, breytingum á þvaglátum og nýjum fæðingablettum svo fátt sé nefnt.

Taki fólk eftir einhverjum einkennum krabbameins sé heilsugæslan fyrsti viðkomustaður.

„Fólk segir stundum „tja, ég þarf að bíða lengi [á heilsugæslunni]“ en við segjum bara að það sé betra að panta tíma og bíða aðeins heldur en að sleppa því,“ segir hún að lokum.

mbl.is