„Það er gott að vera komin með þessa niðurstöðu“

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari hjá embætti héraðssaksóknara. Hún fer fyrir saksóknadeild …
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari hjá embætti héraðssaksóknara. Hún fer fyrir saksóknadeild sem hefur með ofbeldis- og kynferðisbrot að gera. mbl.is/Árni Sæberg

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari segist sátt með þá niðurstöðu Landsréttar að fallast á að heimfæra ákveðinn hluta kynferðisbrota Brynjars Joensen Creed gegn fimm stúlkum á grunnskólaaldri undir nauðgunarákvæði almennra hegningarlaga. Segir Kolbrún að fordæmið geti bætt réttarstöðu barna þar sem samskipti færist í sí auknum mæli inn í stafrænan heim.

Fyrr í dag var greint frá því að Landsréttur hefði þyngt dóm yfir Brynjari úr sex árum í sjö. Átti hann í samskiptum við stúlkurnar, sem allar voru undir 15 ára aldri þegar brotin áttu sér stað, í gegnum samskiptaforritið Snapchat. Þar fékk hann þær meðal annars til að senda sér kynferðisleg myndskeið auk þess að senda þeim einnig sjálfur slík myndskeið. Auk þess var hann sakfelldur fyrir nauðgun gegn tveimur stúlknanna þegar hann hitti þær.

Niðurstaða um ákæru í enn stærra máli væntanleg

Þetta er þó ekki eina málið gegn Brynjari, því lögreglan lauk seint á síðasta ári rannsókn á brotum hans gegn á þriðja tug annarra barna. Var málið í kjölfarið sent til héraðssaksóknara og segir Kolbrún að það mál sé langt komið innan embættisins. Segir hún niðurstöðu ekki liggja fyrir, en að hún sé væntanleg fljótlega.

Snýst um hvort brotin falli undir 194. greinina

Áfrýjun saksóknara til Landsréttar snerist um hvort að myndböndin sem stúlkurnar tóku upp og sendu Brynjari ættu að flokkast undir 194. gr. almennra hegningarlaga og þar með undir nauðgunarákvæði laganna, eða hvort þau flokkist undir 202. gr. sömu laga, þar sem talað er um önnur kynferðisbrot. Héraðsdómur hafði ekki fallist á að það væri nauðgun þar sem stúlkurnar hefðu sjálfar tekið myndskeiðin upp og sent þau meðan Brynjar hefði verið víðs fjarri.

Ljóst er þó út frá gögnum málsins að Brynjar falaðist eftir að fá myndskeið af stúlkunum send og gaf hann þeim meðal annars ýmsar gjafir. Var þar meðal annars um að ræða áfengi, rafrett­ur, níkó­tín­púða, nær­föt og kyn­lífs­hjálp­ar­tæki. Þá setti hann meðal annars upp stigaleik þar sem stúlkurnar fengu fleiri stig eftir því sem myndböndin voru grófari.

Niðurstaða Landsréttar var sú að brot Brynjars flokkuðust undir 194. greinina, meðal annars vegna þess að hann hafi misnotað yfirburðaaðstöðu sína gegn börnunum og í því felist ofbeldi, hótun og misneyting.

Er gerandi á staðnum eða ekki?

„Ég er sátt með að Landsréttur hafi fallist á þessa heimfærslu,“ segir Kolbrún í samtali við mbl.is, en hún segist telja þetta í fyrsta skipti þar sem það flokkast sem nauðgun þegar gerandi lætur brotaþola gera eitthvað sjálfan og gerandinn sé fjarstaddur.

Líkt og komið er inn á í dóminum er fordæmi frá því árið 2010 þar sem maður var sak­felld­ur fyr­ir að neyða sam­búðar­konu sína með hót­un­um til sam­ræðis við aðra menn, þrátt fyr­ir að hann hafi ekki sjálf­ur verið á staðnum. Kolbrún segir muninn vera að þá hafi maður konunnar verið á staðnum í hluta tilfella og haft uppi hótun um að hún ætti að hafa kynferðismök við annan mann. Nú sé um að ræða kynferðismök sem brotaþoli hafi við sjálfan sig og með tækjum undir þrýstingi eða hótunum gerandans.

„Brotin eru að færast í hinn stafræna heim“

„Þarna er verið að fallast á að þetta sé nauðgun eins og ákæruvaldið lagði upp með,“ segir Kolbrún. „Það er gott að vera komin með þessa niðurstöðu.“ Hún tekur þó fram að ekki sé ólíklegt að reynt verði að fara með málið fyrir Hæstarétt.

Spurð hvaða þýðingu þessi dómur hafi almennt segir Kolbrún að þó þetta sé kannski ekki mjög algeng brot, þá sé þetta klárlega réttarvörn fyrir börn. „Brotin eru að færast í hinn stafræna heim. Áður áttu brot sér bara stað þar sem fólk var á sama stað,“ segir hún, en nú sé öldin önnur. „En það að dómstólar fallist á að nauðgunarákvæðið, sem er víðtækt, nái yfir háttsemi sem þessa, það bætir réttarstöðu barna,“ segir hún að lokum.

mbl.is