„Þetta er bara ömurlegt“

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, segir ömurlegt fyrir samfélagið …
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, segir ömurlegt fyrir samfélagið allt að missa þennan mikilvæga miðil af markaðnum. Samsett mynd

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, segir einfaldlega ömurlegt til þess að vita að eitt stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins stefni í þrot. Félagið fundaði með sínum félagsmönnum í morgun og mun veita þeim þá aðstoð sem það getur. 

„Það er aldrei hægt að tilkynna gjaldþrot vel, það er ekki hægt. Þetta er ömurleg staða að vera í. Það er ömurlegt að vera í þeirri stöðu að fá svona fréttir í gegnum fjölmiðla,“ segir Sigríður um þá staðreynd að margir starfsmenn Fréttablaðsins hafi fengið veður af yfirvofandi gjaldþroti og útgáfustoppi í gegnum fjölmiðla í morgun. 

„Nú er bara eitt eftir“

Sigríður segir ömurlegt fyrir samfélagið allt að missa þennan mikilvæga miðil af markaðnum. 

„Þetta er bara annað af tveimur prentuðu dagblöðum landsins og nú er bara eitt eftir. Þetta er lýsandi fyrir þá stöðu sem fjölmiðlar landsins eru í í dag. Það er ömurlegt að vita til þess að það sé ekki meiri dugur í ráðamönnum þessa lands að ráðast í alvöru aðgerðir til styrktar einkareknum miðlum sem við höfum verið að kalla eftir í mörg ár,“ segir Sigríður. 

Hún segir að þau hafi nokkuð lengi séð hvað stefni í, önnur hver auglýsingakróna fari úr landi til fyrirtækja á borð við Facebook og Google. „Þrátt fyrir það er einhvernvegin enginn skilningur á meðal þessara stjórnarflokka sem núna fara með völd að það þurfi aðstoð frá stjórnvöldum til að tryggja að hér séu einkareknir miðlar,“ segir Sigríður. 

Ráðherra hafi sýnt skilning

Segist Sigríður vera farin að trúa því að það séu einfaldlega stjórnmálamenn við stjórnvölinn sem líta á það sem jákvætt fyrir sinn hag að hér séu veikir fjölmiðlar. Spurð hvort hún eigi við einhverja ákveðna stjórnmálamenn sagðist hún eiga við stjórnmálamenn sem einhverju ráða, og að þeir séu í öllum flokkum. 

„Menningarmálaráðherra [Lilja Dögg Alfreðsdóttir] hefur sýnt ákveðinn skilning á stöðu fjölmiðla, og hún hefur sannarlega reynt að grípa til aðgerða sem myndu hjálpa, en ekki fengið undirtektir í samstarfsflokkunum sínum. Þá er ég bæði að tala um Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkinn,“ segir Sigríður. 

Sigríður víkur að samanburði við Norðurlöndin og segir að þar sé þverpólitísk sátt og skilningur á því að grundvöllur og forsendur fyrir lýðræði séu frjálsir, sterkir fjölmiðlar. 

Hún segir að ekki sé hægt að bera saman styrki til ísverksmiðja og fjölmiðla.

 „Fjölmiðlar eru ekki eins og hver atvinnurekstur. Forsendurnar eru allt aðrar. Íslenskir fjölmiðlar eru að keppa um auglýsingar við stærstu fyrirtæki í heimi, Google og Facebook. Það sjá það allir að þar er rangt gefið. Við verðum að horfast í augu við það að pínulítil þjóð með pínulítið tungumál þarf að ákveða hvort hún vill yfir höfuð hafa hér starfandi einkarekna miðla.

Því ef ekkert verður að gert þá er þetta bara búið. Við erum öll sammála um að fjölmiðlar eru forsendur fyrir lýðræðinu, með því aðhaldi sem þeir veita. En hvernig eiga fjölmiðlar að geta sinnt lýðræðishlutverki sínu ef þeir eru ekki til? Við þurfum, sem samfélag, að taka þessa umræðu og grípa til aðgerða sem raunverulega skipta máli. Okkar allra vegna,“ segir Sigríður. 

Uppfært klukkan 15:24: 

Sigríður vildi einnig koma á framfæri:

„Rætt hefur verið um stöðu RÚV á auglýsingamarkaði í samhengi við afdrif Fréttablaðsins. Það er náttúrulega algjörlega óþolandi að árum saman hafi umræðan um aðgerðir til styrktar einkareknum miðlum verið tekin í gíslingu af þeim sem vilja að RÚV verði tekið af auglýsingamarkaði án þess að nokkuð hafi verið aðhafst í þeim efnum. Ég er farin að trúa því að þau sem grípa til þess að ódýra bragðs að afvegaleiða umræðuna með þessum hætti í hvert sinn sem tillögur koma fram um aðgerðir til styrktar einkareknum miðlum, séu vísvitandi að koma þannig í veg fyrir að hægt sé að sammælast um leiðir. Þeim sé í raun engin alvara með því að taka RÚV af auglýsingamarkaði því ef þeim væri það, væri búið að ráðast í þær aðgerðir. Ég segi við þessa stjórnmálamenn: Nú er nóg komið! Takið RÚV af auglýsingamarkaði ef það er það sem stendur í vegi fyrir því að hægt sé að ráðast í aðgerðir sem skipta raunverulega máli fyrir einkarekna miðla og lýðræðislega umræðu í landinu. Ef þið ætlið ekki að taka RÚV af auglýsingamarkaði - hættið að afvegaleiða umræðuna og komið hreint fram. Viljið þið sterka einkarekna miðla - eða viljið þið kannski bara enga?“

mbl.is

Bloggað um fréttina