125 milljónir í sekt fyrir skattsvik

Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Þorsteini A. Péturssyni.
Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Þorsteini A. Péturssyni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur staðfesti í gær dóm Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem Þorsteinn A. Pétursson var dæmdur í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 125 milljónir í ríkissjóð fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum.

Þorsteinn var ákærður fyrir brot gegn skattalögum og peningaþvætti, framin í rekstri ónefnds einkahlutafélags, en hann var í senn framkvæmdastjóri og stjórnarmaður félagsins. Við meðferð málsins í héraði féll ákæruvaldið frá ákæru um peningaþvætti en Þorsteinn játaði þá sök samkvæmt þeim ákæruliðum sem eftir stóðu. 

Freistaði þess að milda dóminn 

Hann var þá dæmdur í héraðsdómi í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða sekt að fjárhæð 125 milljónir krónur í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins. Ef Þorsteinn greiðir ekki innan tilgreinds frest sætir hann fangelsi í 360 daga. 

Þorsteinn áfrýjaði málinu til Landsréttar og fór fram á það að refsing sín yrði milduð. Landsréttur leit til þess að ekki væri fullnægt skilyrðum laga um staðgreiðslu opinberra gjalda og laga um virðisaukaskatt til að fara niður fyrir fésektarlágmark ákvæðanna. 

Þar af leiðandi var ákvæði héraðsdóms um sektarrefsinu Þorsteins staðfest jafnt og ákvæði héraðsdóms um fangelsisrefsingu og skilorðsbindingu hennar. Stendur því dómur Héraðsdóms Reykjavíkur óraskaður en Þorsteinn var jafnframt dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, samtals 774.980 krónur.

mbl.is