Faðirinn lést í flugi: Leita að manni sem hjálpaði

Faðir Gerðar lést í flugferð með flugfélaginu Play á leið …
Faðir Gerðar lést í flugferð með flugfélaginu Play á leið frá Kanarí til Íslands á síðasta ári en þá aðstoðaði maðurinn sem leitað er af systkinin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gerður Petra Ásgeirsdóttir og bróðir hennar leita nú að manni sem var til staðar fyrir þau þegar að faðir þeirra lést skyndilega í flugferð með flugfélaginu Play, á leið frá Kanarí til Íslands, þann 6. apríl 2022.

Gerður lýsir þessu í færslu á Facebook-síðu sinni og biðlar til fólks sem gæti kannast við manninn að hafa samband við sig svo hún geti þakkað honum fyrir að hafa aðstoðað þau systkinin á þessum erfiðu tímum.

Mun líklega gráta er hún sér hann

Í samtali við mbl.is segir hún að maðurinn hafi verið allur af vilja gerður og hafi gert allt sem þau þurftu á að halda af góðmennsku og prúðsemi. Spurð hvað hún muni segja við manninn þegar hún loksins finnur hann segir Gerður að hún muni líklegast bara bresta í grát. 

„Hann hjálpaði okkur gífurlega á allan hátt og gerði allt fyrir okkur. Ég myndi örugglega bara grenja en ég myndi segja takk. Hann passaði okkur svo vel og hlustaði á okkur og passaði pabba. Ég veit ekki hvað ég á að segja hann er bara svo dýrmætur í minningunni.“

Hún segir að maðurinn hafi verið fyrrverandi sjúkraflutningamaður á miðjum aldri en segist hvorki muna fleiri smáatriði um manninn né hvað hann heitir. 

Látið líða sem best í ömurlegum aðstæðum

„Ég man bara að hann passaði okkur og líka starfsfólkið hjá Play. Það var allt gert til að láta okkur líða sem best í þessum ömurlegu aðstæðum.“

Þau sem gætu þekkt til mannsins sem Gerður vísar til eru vinsamlegast beðin um að hafa samband við Gerði í gegnum Facebook.

mbl.is