Páskaegg og silfurskeiðar

Hákon smíðar alls kyns muni úr silfri, bakar og býr …
Hákon smíðar alls kyns muni úr silfri, bakar og býr til sín eigin súkkulaðipáskaegg. mbl.is/Ásdís

Hákon var nýkominn heim úr vinnu sinni í Marel þegar blaðamann bar að garði. Hákon, sem verður þrítugur á árinu, veit fátt skemmtilegra en að vinna í höndunum. Eftir hann liggja fjölmargir skartgripir og aðrir munir úr silfri, en fyrir nokkrum árum uppgötvaði hann námskeið í silfursmíði sem hann sækir á hverju ári. Bakstur er annað áhugamál og gleður hann oft vinnufélaga sína með nýbökuðum bollakökum, nokkuð sem fáir slá hendinni á móti. Nú fyrir páskana spreytir hann sig á handunnum páskaeggjum sem eru ótrúleg listasmíð.

Silfurskeiðar fyrir börnin

Um helgina verður ​Listsýning Einhverfusamtakanna í húsnæði Hamarsins á Suðurgötu 14 í Hafnarfirði, og er sýningin opin frá 12 til 16 báða dagana. Þar sýnir fjölbreyttur hópur listafólks og skapandi einstaklinga á einhverfurófi verk sín og er Hákon einn af þeim.

Hákon hefur smíðað skartgripi og hnífa, svo eitthvað sé nefnt. …
Hákon hefur smíðað skartgripi og hnífa, svo eitthvað sé nefnt. Munir hans verða á listsýningu Einhverfusamtakanna um helgina.

„Fólk er að sýna þar ýmislegt; leirmuni og málverk en ég mun sýna muni úr silfri og handverk úr súkkulaði,“ segir Hákon og sýnir blaðamanni rós úr kopar, skartgripi og forláta drykkjarhorn skreytt með silfri.

„Ég hef smíðað ansi mikið og gef stundum í gjafir. Litlu frændsystkinin fengu öll silfurskeið í jólagjöf eitt árið og nú þarf ég að gera eina í viðbót þar sem eitt barn hefur bæst í hópinn. Svo gef ég stundum vinum mínum gjafir.“

Páskaegg með konfekti

Bakstur og súkkulaði­gerð er annað sem Hákon nýtur sín við.

„Það fer vel saman. Ég hef alltaf haft gaman af bakstri og prófaði eitt sinn að læra til bakara en fann mig ekki og fór aftur til Marels. Svo var það einn vinur minn sem kenndi mér handtökin í súkkulaðigerð og ég fór að prófa mig áfram. Ég æfi mig í þessu sjálfur og bý til bæði konfekt og páskaegg,“ segir Hákon og býður blaðamanni inn í eldhús þar sem tvö handgerð páskaegg eru tilbúin og önnur í vinnslu.

Heimurinn sjálfur var notaður á þetta heimagerða páskaegg sem Hákon …
Heimurinn sjálfur var notaður á þetta heimagerða páskaegg sem Hákon bjó til.

„Inni í þeim er heimagert konfekt,“ segir Hákon og segir að með tímanum hafi hann náð góðum tökum á súkkulaðinu.

Ítarlegt viðtal er við Hákon í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert