Samningar náðust milli Eflingar og Reykjavíkurborgar

Við undirritun samningsins í nótt.
Við undirritun samningsins í nótt.

Kjarasamningur Eflingar og Reykjavíkurborgar var undirritaður í nótt í húsakynnum Eflingar eftir að samninganefndir komust að samkomulagi um endurnýjun samningsins. 

Felur samningurinn í sér nýja launatöflu sem tryggir félagsfólki Eflingar grunnhækkanir mánaðarlauna um 9 prósent.

Fyrri samningur rann út í gær og tekur því samningur við af samningi. Um skammtímasamning er að ræða til 12 mánaða og rennur hann út 31. mars á næsta ári. Þetta kemur fram á vef Eflingar.

Leiðbeinandi á leikskóla hækkar um 39 þúsund

Sem dæmi um launahækkanir þá hækkar leiðbeinandi á leikskóla með eins árs starfsaldur um 39.084 krónur á mánuði samkvæmt nýja samningnum. Deildarstjóri á leikskóla með níu ára starfsaldur hækkar um 47.401 krónu og verkamaður í útivinnu með sjö ára starfsaldur um 41.198 krónur.

Að auki hækka sérstakar greiðslur vegna lægstu launa. Þetta eru annars vegar sérstök hækkun lægstu launa sem fer eftir starfsmatsstigum og hins vegar fastar greiðslur til starfsfólks í leikskólum og starfsfólks í heimaþjónustu.

Samningsivilji og lausnamiðun til staðar

Samningurinn fer í ítarlega kynningu og atkvæðagreiðslu meðal félagsfólks strax eftir helgi og mun niðurstaða atkvæðagreiðslu liggja fyrir eigi síðar þann 14. apríl.

Haft er eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, í tilkynningunni að niðurstaðan sé ásættanleg. Samningsvilji og lausnamiðun hafi verið til staðar af hálfu Reykjavíkurborgar og raunverulegt samtal hafi náðst, en deilunni var aldrei vísað til ríkissáttasemjara.

„Ég lýsi ánægju með hversu vel tókst að viðhalda verðmæti sérstakra greiðslna sem voru stærsti sigur Eflingarfélaga í kjarasamingnunum 2020. Ég hvet félagsfólk til að fylgjast vel með kynningu á inntaki samningsins og taka þátt í atkvæðagreiðslunni um hann,“ sagði Sólveig Anna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert