„Það er svakalegur fjöldi hérna inni“

Gunnar telur að á að fimmta hundrað manns hafi verið …
Gunnar telur að á að fimmta hundrað manns hafi verið í versluninni rétt fyrir hádegi. mbl.is/Óttar

„Það er brjálað að gera hérna,“ segir Gunnar Dofri Ólafsson, samskipta- og vöruþróunarstjóri Sorpu, sem staddur er nýrri verslun Góða hirðisins við Köllunarklettsveg. Löng biðröð myndaðist fyrir framan verslunina áður en hún var opnuð í morgun og stöðugur straumur fólks hefur verið síðan.

Hann telur að á fimmta hundrað manns hafi verið inni í versluninni rétt fyrir hádegi. „Það er svakalegur fjöldi hérna inni. Áðan var röð inn, nú er röð út. Kassarnir hafa ekki undan,“ segir Gunnar jafnframt eftir að hafa metið stöðuna innanhúss fyrir blaðamann.

„Þetta gengur vonum framar. Góði hirðirinn hefur verið lokaður síðan í byrjun febrúar þannig greinileg að það uppsöfnuð þörf hjá fólki að koma og ná sér í góðar notaðar vörur á kostakjörum, sem er akkúrat það sem við viljum.“

Löng biðröð myndaðist fyrir framan verslunina fyrir opnun.
Löng biðröð myndaðist fyrir framan verslunina fyrir opnun. mbl.is/Óttar

Tímamót í endurnotum á Íslandi

Nýja verslunin er 100 prósent stærri en sú gamla í Fellsmúlanum og segir Gunnar húsnæðið margfalt betra og aðgengilegra bæði fyrir viðskiptavini og starfsfólk.

„Hér getum við sinnt þeirri höfuðskyldu Sorpu, að koma eins miklu og við getum aftur inn hringrásina í gegnum endurnot. Það má kalla þetta tímamót í endurnotum á Íslandi.“

Að sögn Gunnars er fólk að næla sér í allt milli himins og jarðar í versluninni; allt frá hnífapörum upp í sófasett, hljóðkerfi, potta og pönnur.

„Akkúrat núna er ég staddur í IKEA-horninu okkar. IKEA hefur það mikla trú á þessu verkefni okkar að þau leyfðu okkur að nota vörumerkið sitt til að merkja þennan hluta. Við fáum mikið af  IKEA-húsgögnum þannig við ákváðum að setja þau öll saman á einn stað þar sem fólk gengið gengið að IKEA-vörum vísum.“

mbl.is/Óttar

Þurfa að selja sjö tonn á hverjum degi 

Opið er til 17 Góða hirðinum í dag og segir Gunnar rétt að undirstrika að ekki sé um aprílgabb að ræða, sem hafa verið ófá það sem af er degi.

Verslunin verður einnig opin á morgun og verða þá nýjar notaðar vörur komnar inn, en daglega er fyllt á með hinum ýmsu gersemum.

mbl.is/Óttar

„Á hinum endanum koma inn sjö tonn af vörum á hverjum virkum degi og við þurfum að selja sjö tonn á hverjum degi því þetta stoppar ekki,“ segir Gunnar, en þar sem verslunin hefur verið lokuð frá því í febrúar hefur mikið safnast upp á lager.

„Við sitjum hérna núna með nokkur hundruð tonn af góðum vörum sem fólk er komið að sækja sér.“

Hann segir ótrúlegustu hluti rata inn í verslunina, bæði hluti sem eru dýrgripir í augum hvers kaupanda og svo raunverulega dýrgripir eins og vel með farin tekk-húsgögn.

„Þau eru fremst í versluninni hjá okkur og eru verðlögð eftir því, en allur ágóði sem verður eftir í Góða hirðinum er gefinn til góðgerðarmála. Þetta fer ekki í rekstur neins nema verslunarinnar og svo góðgerðarmála.“

mbl.is/Óttar
mbl.is/Óttar
mbl.is/Óttar
mbl.is