Mikil mildi að engan sakaði

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra heimsótti Neskaupstað í dag og fór yfir …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra heimsótti Neskaupstað í dag og fór yfir stöðuna með viðbragðsaðilum og bæjarstjórn. Ljósmynd/Aðsend

„Þegar maður skoðar ummerkin eftir þetta flóð þá sér maður hvað það er mikil og ótrúleg mildi að ekki fór verr og að enginn hafi tapað lífi í þessu flóði. Það er alveg ljóst að krafturinn hefur verið alveg svakalegur.

Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra eftir fund sinn í Neskaupstað en hún fór ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni umhverfisráðherra og Víði Reyn­is­syni, yf­ir­lög­regluþjóni al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra, austur í dag til að virða fyrir sér aðstæður og funda með viðbragðsaðilum og bæjarstjórn.

Aðdáunarvert samfélag

Katrín segir fundin hafa gengið vel og að hún hafi fundið fyrir ákveðnum létti hjá bæjarbúum í dag enda blíðviðri í Neskaupstað og búið að aflétta rýmingu á svæðinu.

Katrín segir þau hafa farið yfir viðbrögðin á fundinum og hrósar almenningi og viðbragðsaðilum í hástert fyrir snögg og hnitmiðuð viðbrögð. Hún segir það aðdáunarvert hvernig samfélagið hefur tekið höndum saman á þessum erfiðu tímum.

Nýr varnargarður væntanlegur

Katrín segir að það hafi verið ofarlega í huga fólks á svæðinu að fá frekari varnargarðar og innviði en bendir á að þrír varnargarðar séu nú þegar á svæðinu og að undirbúningur sé hafinn við að reisa þann fjórða í hlíðinni þar sem að snjóflóðið féll á byggðina.

„Fjórði garðurinn er á döfinni og það er nýlega búið að kynna hann. Það er ljóst að það skipti miklu fyrir íbúa að vita hvenær verður hægt að hefja framkvæmdir við hann,“ segir Katrín en bætir við að það muni koma til með að taka nokkur ár að reisa hann en að undirbúningur sé kominn vel á veg. 

Hún bendir á að það séu mörg svæði á landinu þar sem þörf er á frekari varnargörðum og að ríkisstjórnin hafi aukið fjárveitingar í þennan málaflokk fyrir tveimur árum. 

„Ljóst er að þörfin er brýn. Það er mikilvægt að ríkið og sveitarstjórn vinni saman að svona málum. Það er líka mikilvægt að ráðast í það að gera allt þetta ferli eins og rýmingarkortin stafrænt.“

Munu ræða lög um náttúruhamfaratryggingar

Aðspurð segir Katrín það mögulega koma til greina að ræða lög um náttúruhamfaratryggingar en bendir þó á að þau hafi síðast verið endurskoðuð árið 2018. Hún segir það hafa verið til umræðu hvort það megi samræma betur þá sjóði sem þar eru starfandi.

„Það er brýnt að halda dampi í þessum ofanflóðavörnum um land allt og síðan er mikilvægt að fara yfir það hvernig við getum skýrt betur tjóna og tryggingamál í kjölfar náttúruhamfara. Það er mögulega hægt að stíga ákveðin skref til að eyða ákveðnum gráum svæðum. Það er auðvitað sjálfsagt að fara yfir þessi mál og læra af þeim.“

Eins og greint var frá í dag þurfa þeir sem urðu fyrir tjóni að bera 600 þúsund krónur í sjálfsábyrgð en 10 íbúðir urðu fyrir tjóni vegna snjóflóðsins.

mbl.is