Tjón á 10 íbúðum: Sjálfsábyrgðin 600 þúsund

Töluvert tjón varð á bílum og fasteignum vegna snjóflóða í …
Töluvert tjón varð á bílum og fasteignum vegna snjóflóða í Neskaupstað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þau sem urðu fyrir tjóni vegna snjóflóða sem féllu í Neskaupstað í síðustu viku þurfa sjálf að bera að minnsta kosti um 600 þúsund króna hlut af tjóni sínu. Það er vegna ákvæða í lögum um náttúruhamfaratryggingar um eigin áhættu en upphæðin var hækkuð til muna með lagabreytingu fyrir fimm árum síðan.

Eins og áður hef­ur verið greint frá var öll­um eft­ir­stand­andi rým­ing­um vegna snjóflóðahættu aflétt í Nes­kaupstað í gær og var hættu­stigi á Aust­fjörðum einnig aflétt. Óvissu­stig vegna of­an­flóðahættu er þó áfram í gildi.

Tíu íbúðir hið minnsta orðið fyrir tjóni

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúrhamfaratryggingar Íslands, staðfestir í samtali við mbl.is að tíu íbúðir hafi orðið fyrir tjóni vegna snjóflóðanna en starfsmenn vátryggingarsviðs Náttúruhamfaratrygginga Íslands eru á vettvangi eins og stendur. Íbúðirnar tíu eru í tveimur fjölbýlishúsum sem snjóflóðin lentu á en ekki er vitað um tjón á innbúi í tveimur til fjórum íbúðum.

Jafnframt féll snjóflóð að tveimur einbýlishúsum en ekki er búið að sýna fram á tjón á þeim. Von er á matsmönnum síðdegis í dag eða á morgun og þeir munu koma til með að leggja mat á hvort tjón sé til staðar.

„Það er mjög mismunandi en við reynum þegar það eru svona stór tjón að flýta störfum og það er markmiðið að gera þetta á fáeinum vikum. Hvort það eru tvær eða fjórar get ég ekki sagt en það verður mun fyrr vegna innbúana, við ætlum að gera það fyrir páska,“ segir Hulda spurð hvenær tjónshafar megi eiga von á greiðslu frá Náttúruhamfaratryggingum.

Hvernig verjum við sjóðinn?

Eigin áhætta vegna tjóns á fasteign er hið minnsta 400 þúsund krónur en 200 þúsund vegna tjóns á innbúi. Ef verðmat heildartjóns á fasteign er meira en 20 milljónir þarf eigandi að bera 2 prósent af heildartjóni sjálfur og ef heildartjón á innbúi er meira en 10 milljónir þarf eigandi að bera 2 prósent af því tjóni sjálfur. Eigin áhætta getur því verið hærri.

Þá er vert að nefna að náttúruhamfaratrygging tekur aðeins til fasteigna og innbús og eru því sólpallar og skjólveggir utan húss ekki tryggðir nema þeir séu hluti af brunabótamati fasteignar. Þá tekur náttúruhamfaratrygging ekki til ökutækja en Hulda bendir á að almenn tryggingarfélög bæti tjón sem verða vegna snjóflóða ef ökutækin eru með kaskótryggingu.

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúrhamfaratryggingar Íslands.
Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúrhamfaratryggingar Íslands. Ljósmynd/Aðsend

„Þegar það er verið að byggja upp svona tryggingarsjóð eins og þennan þá er alltaf verið að hugsa um hvernig verjum við sjóðinn svo að hann sé til staðar þegar það þarf á honum að halda í stórum atburðum. Ef eigin áhættan væri töluvert lægri þá einfaldlega þyrfti fólk bara að finna miklu meira fyrir iðgjöldunum. Til lengri tíma litið þá efast ég um að allir landsmenn væru tilbúnir til að borga miklu hærri iðgjöld til að vera með lægri eigin áhættu.“

Hækkað með lagabreytingu

Upphæð eigin áhættu vegna tjóna af völdum náttúruhamfara var hækkað með lagabreytingu árið 2018 en fyrir það var eigin áhætta að lágmarki 85 þúsund krónur vegna fasteigna og tuttugu þúsund vegna innbús. Þá var eigin áhætta af heildartjóni að lágmarki fimm prósent en er nú tvö prósent. 

Spurð hvernig fólk sem hefur orðið fyrir tjóni bregst við ákvæðum um eigin áhættu segir Hulda fólk almennt sýna því skilning.

„Almennt held ég að fólk hafi skilning fyrir því að tryggingar sem eru hugsaðar í hamförum eru hugsaðar til að hjálpa fólki að glata ekki eigninni sinni. Markmiðið er auðvitað að þessi sjóður sé til staðar svo að fólk missi ekki húsin sín. Það er verið að horfa á að þessi eigin áhætta sé eitthvað sem fólk komist í gegnum þó að þetta sé mikið áfall.“

Tvö fjölbýlishús urðu fyrir töluverðu tjóni vegna snjóflóðanna.
Tvö fjölbýlishús urðu fyrir töluverðu tjóni vegna snjóflóðanna. Ljósmynd/Landsbjörg
mbl.is