Varmá lokað vegna saurmengunar

Fiskurinn í Varmá fær nú frið frá veiðimönnum í bili.
Fiskurinn í Varmá fær nú frið frá veiðimönnum í bili. Ljósmynd/SVFR

Ef ný og stærri hreinsistöð verður byggð fyrir fráveitu Hveragerðisbæjar kostar það bæjarfélagið um einn milljarð króna. Ljóst er að úrbóta er þörf en mikil saurgerlamengun hefur mælst í Varmá og hefur hún aukist hratt undanfarið ár. Stangveiði í ánni hefur verið stöðvuð ótímabundið og verður hún ekki opnuð á ný fyrir veiði fyrr en úrbætur hafa verið gerðar.

Þetta er mikið áfall en það hefur verið eftirsótt meðal veiðimanna að hefja stangveiðitímabilið á bökkum Varmár en veitt hefur verið fram í október. Áin er viðkvæm og lífríki hennar sérstakt en í henni er að finna allar tegundir íslenskra ferskvatnsfiska. Sjóbirtingurinn er þó allsráðandi á svæðinu. Margir telja Varmá bestu sjóbirtingsá Suðurlands.

Mengunin er svo mikil að hún er þúsund sinnum meiri en þau hættumörk sem notuð eru til að vara fólk við sjósundi. „Ég myndi ekki synda í þessari á,“ segir Sigrún Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Enda er ekki ætlast til þess en annað slagið freistast fólk þó til að svamla í ánni enda óvenjuhlý eins og nafnið gefur til kynna. Nýir vatnsgæðamælar verða settir í ána eftir páska.

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefur fylgst náið með Varmá undanfarin ár en fyrir um ári hófst ítarlegri vöktun en áður og viðvörunarljósin tóku að blikka fyrir alvöru. Hlutverk eftirlitsins er að sjá til þess að það fari ekki mengun út í náttúruna og ljóst var að bregðast þyrfti við þar sem fráveitukerfið annar ekki sínu hlutverki.

„Þetta hefur versnað mjög mikið á undanförum árum,“ segir Sigrún. Núverandi hreinsunarstöð var tekin í gagnið upp úr 2000 vegna ófremdarástands sem þá ríkti og ýmislegt misgeðslegt rann út í ána.

Geir Sveinsson bæjarstjóri í Hveragerði segir ástandið ekki gott en nýr meirihluti taki málið föstum tökum og hyggist finna úrbætur. Megnið af menguninni sé að finna neðan þjóðveginn þar sem hreinsistöðina er að finna. „Þetta er mál sem þarf að takast á við.“

Aðspurður hvort fyrrverandi bæjaryfirvöld hafi sofið á verðinum segir Geir: „Það liggur í augum uppi en þetta hefur gerst hratt og ljóst að uppbygging þessara innviða hefur ekki náð að halda í við fjölgun íbúa og aukinn fjölda ferðamanna. Fjölgun íbúa hefur verið ör á síðustu fimm til sex árum og ekkert sveitarfélag hefur vaxið hraðar hlutfallslega á undanförnum tveimur til þremur árum. Um 3.200 manns búa í bænum.“

Um 400 þúsund ferðamenn heimsækja Reykjadal á ári. Þá staldra fjölmargir ferðamenn sem eiga leið um Suðurland við í bænum en Suðurlandið er fjölsóttasta ferðamannasvæði landsins. Allt veldur þetta auknu álagi.

Geir segir að 30 milljónir króna hafi verið eyrnamerktar í úrbætur og sú vinna sé hafin. Það sé í forgangi að bæta fráveitumálin. Hann segir að verið sé að skoða ýmsar leiðir. „Hvort það þurfi nýja og stærri hreinsistöð, nokkrar minni og hvort það sé orðið tímabært að veita fráveitunni annað en í Varmá.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert