Björn hættir við að hætta

Björn hefur ákveðið að halda áfram sem ritstjóri miðilsins eftir …
Björn hefur ákveðið að halda áfram sem ritstjóri miðilsins eftir að hafa sagt upp á síðasta ári.

Björn Þorfinnsson hefur ákveðið að halda áfram sem ritstjóri DV.is eftir að hafa sagt upp störfum á síðasta ári.

Fram kom í Morgunblaðinu á laugardag að Fjölmiðlatorgið ehf., félag í eigu Helga Magnússonar, hefði keypt DV út úr Torgi á 430 milljónir króna.

Helgi er einn aðaleigenda Torgs, sem átti Fréttablaðið, DV og Hringbraut.

Björn segir að sagt hafi verið frá kaupunum á fundi á föstudag, á sama tíma og greint var frá því að útgáfu Fréttablaðsins yrði hætt. 

Öll áhersla á DV

Björn segir nú breyttar forsendur fyrir starfi sínu sem ritstjóri. Öll áhersla verði lögð á DV og vöxt vefsins. Umgjörðin verði meiri og að í ritstjórninni fjölgi úr sjö upp í níu. 

„Það breytir miklu fyrir mig og ég ætla að fylgja því verkefni úr hlaði,“ segir Björn um ástæðu þess að hann hafi ákveðið að vera um kyrrt. 

Hann segir tilkynninguna á föstudag hafa komið mikið á óvart og að ritstjórn DV sé enn að ná áttum. Það hafi þó verið vísbendingar til staðar um að reksturinn væri mjög þungur en að flestir hafi búist við áherslubreytingum. 

Ritstjórn DV stendur nú í flutningum upp í Kópavog og allir í vinna að heiman á meðan því stendur. „Þetta gengur bara hratt og vel. Ég hugsa að lesendur DV muni ekki taka eftir því á vefnum að við séum í einhverju limbói þessa dagana,“ segir Björn.

Tilgangurinn ekki ljós

Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að athygli hafi vakið í september í fyrra, þegar Fjölmiðlatorgið ehf. var stofnað með fjölmiðlarekstur að markmiði og í sömu húsakynnum og Torg.

Forráðamaður beggja félaga er Helgi eins og áður sagði, sem keypti Torg fyrir ótilgreinda upphæð árið 2019. Ekki er ljóst til hvers Fjölmiðlatorgið var notað, en þar virðist hafa verið um einhvers konar varúðarráðstöfun að ræða.

Í ársreikningi Torgs fyrir 2021, sem undirritaður var í ágúst 2022, segir að óefnislegar eignir hafi verið seldar fyrir 480 m.kr. og skuld við tengda aðila breyst sem því næmi.

Óefnislegar eignir gætu verið útgáfuréttur o.þ.h., sem þannig hafi farið út úr félaginu sem liður í skuldajöfnun við aðaleigandann Helga, sem veitt hafði félaginu mikil lán til að styrkja reksturinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert