Altjón á 21 farartæki og 10 íbúðum

Guðmundur er formaður Rótarýklúbbsins í Neskaupstað.
Guðmundur er formaður Rótarýklúbbsins í Neskaupstað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Bara það tjón sem fólk varð fyrir andlega, að upplifa þetta, manni finnst eins og það sé nóg. Það þarf ekki að bæta við fjárhagsáhyggjum,“ segir Guðmundur Höskuldsson, formaður Rótarýklúbbsins í Neskaupstað. Klúbburinn fór af stað með söfnun um helgina til að safna fé fyrir þær fjölskyldur sem misstu allt sitt í snjóflóðunum sem féllu í Norðfirði í síðustu viku.

Mikið eignatjón varð í snjóflóðunum en Guðmundur segir að altjón hafi orðið á að minnsta kosti 10 íbúðum. Þá er 21 ökutæki ónýtt, 20 bílar og einn vélsleði. 

Söfnunin gengur vel en Guðmundur segir klúbbinn hafa ákveðið að fara af stað með hana því mikill samhugur væri í fólki fyrir austan og að margir hefðu áhuga á að styrkja þær fjölskyldur sem verst fóru út úr flóðunum.

Ljóst er að tjónið kemur misilla við fjölskyldur, en eigin ábyrgð er að minnsta kosti 600 þúsund krónur fyrir húsnæði og innbú. Guðmundur bendir svo á að ef fólk missti líka bifreið í flóðunum bætist þar ofan á 200 þúsund krónur í eigin ábyrgð, ef fólk er með bílinn í kaskótryggingu. Þeir sem ekki séu með kaskótryggingu séu enn verr staddir. 

Mikið tjón varð í Starmýri.
Mikið tjón varð í Starmýri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fólki líður betur

Almannavarnir opnuðu í gær þjónustumiðstöð í Egilsbúð þar sem íbúar geta sótt upplýsingar um tryggingar en einnig sálfélagslegan stuðning. 

Guðmundur segir að að sálfélagslegi stuðningurinn á vegum Rauða krossins hafi hjálpað íbúum mikið.

„Maður heyrir það á fólki, sem varð fyrir talsverðu áfalli, þau sem vöknuðu kannski með rúmið og herbergið fullt af snjó, að eftir að hafa farið og talið við Rauða krossinn, að fólki líður bara miklu betur eftir það,“ segir Guðmundur. 

Guðmundur býr í Starmýri 15, en flóðin féllu á húsin hinum megin við götuna, númer 17-19 og 21-23. Rúður brotnuðu í húsi Guðmundar og bifreiðar hans eru einnig laskaðar eftir flóðin. Hann vonast þó til að húsbíllinn hans, sem var í annarri innkeyrslunni, sé ekki alveg ónýtur. 

Þeir sem vilja leggja sitt af mörkum til að aðstoða íbúa Neskaupstaðar geta lagt inn á eftirfarandi reikning í Sparisjóði Austurlands:

Reikningur: 1106-05-250199

Kennitala: 550579-1979

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert