Flóðið hefði líklega náð inn í byggðina

Ummerki kófhlaups mánudaginn 27. mars, á 17 m háum þvergarði …
Ummerki kófhlaups mánudaginn 27. mars, á 17 m háum þvergarði undir Drangagili í Neskaupstað. Flóðið rakst á garðinn á miklum hraða og snjórinn klesstist inn í netgrindur sem eru til styrkingar á brattri garðhliðinni. Snjórinn kastaðist upp á garðtoppinn á um 80 m löngum kafla og náði 10-20 m niður á neðri garðhliðina. Á fimmtudag féll annað flóð á keilur fyrir ofan sama varnargarð en það stöðvaðist áður en það náði garðinum.

Snjóflóðin sem féllu í Neskaupstað á fimmtudag eru væntanlega með stærstu flóðum í sögu bæjarins. Ekki síst ef haft er í huga hversu stór þau hefðu orðið, ef ekki hefði verið fyrir stoðvirki á upptakasvæðunum og varnarvirki neðar í hlíðinni.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar, þar sem farið er yfir þau snjóflóð sem féllu í síðustu viku.

„Líklegt má telja að flóðið úr Drangagili hefði náð inn í byggðina og ekki er ólíklegt að það sama eigi við um snjóflóðið úr Innra-Tröllagili,“ segir þar.

„Slík flóð eru ekki algeng og má ætla að þessi tvö stærstu flóð í nýafstaðinni hrinu hefðu verið með stærstu flóðum í kaupstaðnum á síðustu rúmlega 100 árum ef miðað er við hugsanlega eða líklega stærð þeirra án varnarvirkjanna.“

Tekið er fram að mælingar muni gefa skýrari mynd af umfangi flóðanna.

Unnið að snjómokstri í síðustu viku eftir að snjóflóð höfðu …
Unnið að snjómokstri í síðustu viku eftir að snjóflóð höfðu fallið í Neskaupstað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Köstuðu flóðinu hátt í loft upp

Þá er rifjað upp að á fimmtudaginn hafi mikil úrkoma verið, í austan- og austnorðaustanvindi. Víðast hvar var snjókoma til fjalla en rigning eða slydda á láglendi þennan dag.

„Mörg snjóflóð féllu á nýjan leik ofan og innan Neskaupstaðar. Þau voru mjög frábrugðin kófhlaupunum sem féllu á mánudaginn. Miklu meira snjómagn var í þeim, og þau komu niður í rakan snjó í neðri hluta hlíða,“ stendur í samantektinni.

„Flest þeirra fóru mun styttra og stöðvuðust í um 150 m hæð yfir sjó, en snjóflóð féll á varnarkeilur undir Tröllagiljum. Stærsta snjóflóðið féll úr Drangagili og lenti á varnarkeilum, og sáu sjónarvottar hvernig keilurnar köstuðu flóðinu hátt í loft upp áður en það stöðvaðist ofan við varnargarðinn.“

Snjóflóð á mánudeginum féll á íbúðarhús í bænum.
Snjóflóð á mánudeginum féll á íbúðarhús í bænum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Töluvert tjón varð af völdum snjóflóða á mánudag. Ekkert manntjón …
Töluvert tjón varð af völdum snjóflóða á mánudag. Ekkert manntjón varð sem betur fer. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stöðvaðist rétt ofan við þvergarðinn

Bent er á að bæði í Tröllagiljum og Drangagili séu svokölluð upptakastoðvirki eða snjóflóðagrindur ofarlega í fjallinu, þar sem halli er nægur til þess að snjóflóð geti farið af stað.

„Tilgangur stoðvirkjanna er að draga úr því snjómagni sem getur farið af stað í snjóflóði. Ofan við byggðina eru varnargarðar sem kallast þvergarðar vegna þess að þeir liggja þvert á stefnu snjóflóða. Þeir eru 14-20 m háir og mjög brattir fjallsmegin.

Ofan við varnargarðana eru tvær raðir af varnarkeilum, en hlutverk þeirra er að draga úr orku og hraða snjóflóða og tvístra svokölluðum iðufaldi sem fylgir oft þurrum snjóflóðum.

Í Drangagili fór snjóflóðið af stað neðan við upptakastoðvirkin og lenti síðan á varnarkeilunum sem bremsuðu flóðið með því að tvístra því og kasta í loft upp. Flóðið stöðvaðist rétt ofan við þvergarðinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert