Hvorki vegið að stjórnarskrá né fullveldi framselt

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra segir það vera mat íslenskra fræðimanna sem hafa skoðað innleiðingu EES-reglna í íslenska löggjöf, meðal annars Stefáns Más Stefánssonar, í nýlegri grein í afmælisriti Hæstaréttar, sem hann skrifar með Dr. Margréti Einarsdóttur, að bókunin sé ekki réttilega innleidd í íslensk lög þótt það hafi verið upphaflegt markmið.

Ut­an­rík­is­ráðherra hef­ur lagt fram frum­varp til breyt­inga á lög­um um EES-samn­ing­inn sem er ætlað að upp­fylla kröf­ur ESA um for­gangs­áhrif EES-reglna. Stefán Már Stef­áns­son, pró­fess­or við laga­deild Há­skóla Íslands, hef­ur lýst áhyggj­um af út­víkk­un EES-samn­ings­ins.

Ábyrgðarhluti að laga það

Meg­in­regl­an um tvíeðli lands­rétt­ar og þjóðarétt­ar er, að því EES-samn­ing­inn varðar, sér­stak­lega áréttuð í bók­un 35 með EES-samn­ingn­um. Þar seg­ir að stefnt sé að eins­leitu Evr­ópsku efna­hags­svæði sem bygg­ist á sam­eig­in­leg­um regl­um, án þess að samn­ingsaðila sé gert að fram­selja lög­gjaf­ar­vald til stofn­ana Evr­ópska efna­hags­svæðis­ins.

Þórdís segir að þar sem EES-reglurnar hafi ekki verið innleiddar réttilega hafi bókun 35 verið túlkuð þröngt og því sé það ábyrgðarhluti að laga það eins og upphaflega var markmiðið.

„Þetta er afmörkuð forgangsregla. Þetta er ekki almenn forgangsregla og á eingöngu við þegar þingið hefur sjálft tekið sjálfstæða afstöðu til EES-reglna og innleitt þær í íslensk lög.

Ef það koma dæmi þar sem íslensk lög skarast beri að líta til þess að við ætlum okkur að standa við þjóðréttarlegar skuldbindingar. Ef þingið ætlar sér að hafa öðruvísi reglur þá þurfi að taka það fram og það hafi þá sínar afleiðingar.“

Hún segir að þinginu sé þá auðvitað alltaf undir öllum kringumstæðum í sjálfsvald sett að setja hvaða lög sem er svo lengi sem þau standast stjórnarskrá.

„Við skuldbundum okkur til fyrir 30 árum síðan að innleiða EES-reglur með réttum hætti til að tryggja að einstaklingar og lögaðilar hefðu sama rétt á Íslandi og á EES-svæðinu.

Það sem við erum að leggja til í þessu frumvarpi er að hnykkja á því sem má lesa út úr bæði greinargerð og nefndaráliti með frumvarpinu á sínum tíma að hafi staðið til og hafi verið viljinn, fyrir 30 árum síðan, með innleiðingunni á bókun 35.“

Ákveðin íslensk lög gangi framar öðrum íslenskum lögum

Þórdís segir kjarna málsins vera þann að ekki sé lagt til að EES-reglur eigi að ganga íslenskum lögum framar heldur að ákveðin íslensk lög eigi að ganga öðrum íslenskum lögum framar.

„Það er gríðarlega mikilvægt að einstaklingar og lögaðilar geti gengið út frá því að réttur þeirra sé ekki lakari á Íslandi en á EES-svæðinu og það er mjög mikilvægt að halda því til haga að hér er eingöngu um að ræða tilvik þegar löggjafinn hefur tekið regluverk í gegnum EES-samninginn og innleitt í íslensk lög.

Það er aldrei þannig að eitthvert regluverk komi frá Evrópu í gegnum EES-samninginn eða frá Evrópusambandinu sem síðan á að gilda umfram íslensk lög. Þetta á eingöngu við um innleidd íslensk lög. Þannig að rökin fyrir því að þarna sé eitthvað frekara framsal á fullveldi eða að þetta sé farið að snerta eða pota í okkar stjórnarskrá, þá lít ég ekki svo á,“ segir hún.

Málið hefur mallað í kerfinu í mörg ár að sögn Þórdísar Kolbrúnar. Hún segur frumvarpið unnið af hópi fólks sem byggði á vinnu sem hafð þegar verið unnin í málinu. Hópinn skipuðu Gunnar Þór Péturrson, sérfræðingur í Evrópurétti, Gunnar Atli Gunnarsson, fyrrverandi aðstoðarmaður hæstaréttardómara, Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu.

Ljósmynd/AFP

Tekur öllum slíkum tillögum fagnandi

„Frumvarpið er að fara inn í þingið og fær þar sína þinglegu meðferð. Það verður sent til umsagnar og ég á eftir að mæla fyrir því.

Ef virtir fræðimenn eru með góðar tillögur sem byggjast á sterkum grunni sem ganga skemur, en uppfylla þó að við innleiðum bókunina með réttum hætti, þá tek ég öllum slíkum tillögum fagnandi og ég er viss um að þingið gerir hið sama.

Þetta er ekki eina leiðin en í mínum huga var þetta, að allri vinnu lokinni, sú síst dramatíska til þess að ná settu markmiði.“

Þórdís segir markmiðið skýrt. Hún segir að vilji sé til þess að bæta úr því, sem hún telur vera álit langflestra lögfræðinga á Íslandi, að bókunin sé ekki réttilega innleidd.

„Öll umræða um hvort einhver fínpússun eða önnur útfærsla á því sé í boði er bara af hinu góða,“ segir Þórdís Kolbrún.

Hún segir sjónarmið uppi um að við eigum alls ekki að gera þetta eða jafnvel að taka skref til baka þegar kemur að veru okkar í EES-samstarfinu.

„Þá erum við komin í aðra pólitíska umræðu. Þar er ég sjálf með skýra sannfæringu. Ég vil standa vörð um EES-samninginn. Hann er okkur gríðarlega mikilvægur. Framkvæmd á honum þarf að vera einstaklingum og lögaðilum til hagsbóta eins og lagt var upp með.“

Stefán Már Stef­áns­son, pró­fess­or við laga­deild Há­skóla Íslands, hef­ur lýst …
Stefán Már Stef­áns­son, pró­fess­or við laga­deild Há­skóla Íslands, hef­ur lýst áhyggj­um af út­víkk­un EES-samn­ings­ins. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Samstaða í ríkisstjórn og þingflokknum

Utanríkisráðherra hefur rætt frumvarpið í ríkisstjórn og það hafa verið umræður um það í þingflokki Sjálfstæðisflokksins.

„Þetta mál hefur verið rætt af og til undanfarin ár. Í ríkisstjórn var sátt um að afgreiða málið til þingflokka en það liggur fyrir að það þarf umræðu í þinginu og í nefndinni og sömuleiðis í þingflokkunum áður en það verður afgreitt.

Ég geri ráð fyrir því að svona mál taki tíma og ég fagna allri umræðu um það og er einnig tilbúin að skoða allar tillögur sem koma okkur að settu markmiði með öðrum leiðum.

Þetta er viðkvæm lína sem þarf að halda sig innan við og það var samstaða í þingflokknum um að þessi útfærsla væri ágæt en sjónarmið um að það þurfi að skoða málið og ræða það frekar.“

Ríkisstjórn Íslands á fundi ríkisráðs á Bessastöðum í janúar á …
Ríkisstjórn Íslands á fundi ríkisráðs á Bessastöðum í janúar á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikilvægt að standa vörð um samninginn

Þórdís Kolbrún segir umræðuna um Evrópusamstarf vera stóra og breiða og sjónarmiðin fleiri en menn geti talið.

„Við sem flokkur höfum talað mjög sterkt fyrir því að EES-samningurinn sé okkur mikilvægur og okkar leið til að eiga þetta nána og þétta samstarf inn á Evrópusvæðinu og hafa þetta frelsi inni á þessum stóra markaði.

Við erum ekki að einskorða getu lögaðila og frelsi einstaklinga til að sækja sér þekkingu, flytja og starfa og allt þetta við Ísland heldur við þetta stóra svæði.

Í mínum huga er gríðarlega mikilvægt að standa vörð um þennan samning fyrir flokk sem er þeirrar skoðunar að ganga ekki alla leið inn í Evrópusambandið með öllu sem því fylgir.“

Hún segir að í Sjálfstæðisflokknum finnist fjöldinn allur af skoðunum og að þar sé fólk að finna sem vilji ganga skemur og þar sé einnig fólk sem myndi líklega vilja draga Ísland úr EES-samningnum „sem ég teldi aldrei koma til greina fyrir íslenskt samfélag, lífskjör og lífsgæði“, segir Þórdís Kolbrún.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á landsfundi flokksins í haust. Þórdís …
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á landsfundi flokksins í haust. Þórdís Kolbrún segir að innan Sjálfstæðisflokksins sé að finna fjöldann allan af skoðunum, meðal annars fólk sem vilji ganga skemur en frumvarpið gerir ráð fyrir og einnig fólk sem myndi líklega vilja draga Ísland út úr EES-samningnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina