Strætó varð alelda á örskotstundu þegar hann var á leið á Flugvallarvegi í Reykjanesbæ. Útkallið kom um hálf tvö og um hálftíma síðar var búið að slökkva eldinn.
Samkvæmt upplýsingum frá varðstofu Brunavarna Suðurnesja var einn farþegi í vagninum þegar eldurinn kom upp en farþeginn ásamt vagnstjóra komst auðveldlega út úr vagninum. Vagnstjórinn hafði orðið eldsins var og beygði inn á malarplan.
Samkvæmt vaktmanni kom eldurinn upp í vélarrými og var hann allt að því alelda þegar slökkviliðið kom á svæðið. Tvær rúður sprungu út en notast var við froðu til þess að slökkva eldinn.
Jóhann Ragnarsson tók myndbandið sem fylgir fréttinni.