Lægri eigin áhætta kallar á hærri iðgjöld

Snjóflóðin ollu miklu skemmdum.
Snjóflóðin ollu miklu skemmdum. Ljósmynd/Landsbjörg

Mikil áhætta væri tekin með sjóð Náttúruhamfaratrygginga Íslands (NTÍ) ef eigin áhættan væri mjög lág. Kostnaður við afgreiðslu minniháttar tjóna yrði umtalsverður auk þess sem hætta yrði á að verulega yrði gengið á sjóðinn í atburði eins og jarðskjálfta í útjaðri höfuðborgarsvæðisins þar sem fjölda mörg hús gætu orðið fyrir 2-4.000 þúsund króna tjóni vegna minniháttar skemmda. Þetta kemur fram í tilkynningu NTÍ. Þá myndi lægri eigin áhætta kalla á hærri iðgjöld.

„Þá er vert að geta þess að breytingin sem gerð var í síðustu lagabreytingu úr 5% í 2% og hækkun eigin áhættu úr 85 þúsund í 400 þúsund er til hagsbóta fyrir alla þá sem verða fyrir tjóni sem er hærra en 8 milljónir á húseign og 4 milljónir á lausafé,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Langt komnir með matsgerðir

Nokkur umræða hefur verið um eigin áhættu tjónþola sem þykir há fyrir þá sem urðu fyrir tjóni í flóðunum á Austfjörðum í síðustu viku.

Í tilkynningunni kemur fram að matsmenn séu langt komnir með matsgerðir fyrir þær 10 húseignir sem urðu fyrir skemmdum í fjölbýlishúsunum í Neskaupstað og verður niðurstaða kynnt eigendum í dag. 

„Starfsmenn NTÍ hafa staðið í ströngu síðustu daga við að skoða og meta tjón sem snjóflóðin á Neskaupstað hafa valdið á húseignum og lausafé. Áhersla hefur verið lögð á að flýta mati og uppgjöri í samvinnu við eigendur eignanna. Uppgjöri er nú lokið á nánast öllum lausafjártjónum að frátöldum munum í einni geymslu þar sem eigandi var fjarverandi og gat ekki gefið matsmönnum aðgang að henni til tjónamats,“ segir í tilkynningunni.

Klára útistandandi mál eftir páska

Auk fjölbýlishúsanna í Starmýri varð minniháttar tjón á tveimur einbýlishúsum við Mýrargötu og mun tjónamat á þeim liggja fyrir á allra næstu dögum.

„Starfsmenn NTÍ verða á Neskaupsstað til 17:00 í dag og munu taka á móti eigendum ef þeir hafa einhverjar spurningar eða athugasemdir við mötin sem kynnt verða í dag.

Fulltrúar NTÍ munu koma aftur á Neskaupsstað í vikunni eftir páska til að klára útistandandi mál sem ekki næst að ljúka núna fyrir páskahátíðina.“

mbl.is