Gefa lítið fyrir orð formanns BÍ

Leifar Fréttablaðsins standa enn víða þar sem fólk á leið …
Leifar Fréttablaðsins standa enn víða þar sem fólk á leið hjá. Á sama tíma nýtur ríkismiðillinn aukinna fjárheimilda. Samsett mynd

Ekki verður horft fram hjá því að stærð og umsvif Ríkisútvarpsins (Rúv) á fjölmiðlamarkaði hefur áhrif á rekstur annarra fjölmiðla. Þá hafa skattgreiðendur hvað eftir annað þurft að styðja við rekstur ríkisfjölmiðilsins á meðan aðrir fjölmiðlar þurfa að taka afleiðingum af erfiðum rekstri.

Þetta er á meðal þess sem bar á góma í nýjasta þætti hlaðvarpsins Þjóðmála.

Þau Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og fyrrverandi fjölmiðlakona, og Andrés Magnússon, fulltrúi ritstjóra á Morgunblaðinu, ræða þar meðal annars um stöðu Fréttablaðsins sem hefur nú hætt útgáfu og stefnir að öllu óbreyttu í gjaldþrot.

Eru þau sammála um að gott sé hafa fjölbreytta flóru fjölmiðla, en bæði gefa þau lítið fyrir orð formanns Blaðamannafélagsins, um að staða Ríkisútvarpsins skipti aðra fjölmiðla ekki máli. 

Sendi skeyti vegna ríkismiðilsins

Í þættinum er vikið að ummælum formannsins, Sigríðar Daggar Auðunsdóttur sem einnig er starfsmaður Ríkisútvarpsins, sem sagði fyrir helgi að ekki væri hægt að halda umræðu um stöðu fjölmiðla í gíslingu með því að tala um stöðu Rúv á auglýsingamarkaði.

Kvaðst hún vera far­in að trúa því að það væru ein­fald­lega stjórn­mála­menn við stjórn­völ­inn sem litu á það sem já­kvætt fyr­ir sinn hag að hér væru veik­ir fjöl­miðlar.

Í birtu viðtali mbl.is við Sigríði Dögg var ekki minnst á ríkismiðilinn, en í orðsendingu sem Sigríður Dögg sendi mbl.is í kjölfarið vék hún sérstaklega að honum.

„Rætt hef­ur verið um stöðu RÚV á aug­lýs­inga­markaði í sam­hengi við af­drif Frétta­blaðsins. Það er nátt­úru­lega al­gjör­lega óþolandi að árum sam­an hafi umræðan um aðgerðir til styrkt­ar einka­rekn­um miðlum verið tek­in í gísl­ingu af þeim sem vilja að RÚV verði tekið af aug­lýs­inga­markaði án þess að nokkuð hafi verið aðhafst í þeim efn­um,“ sagði formaðurinn meðal annars í skeytinu.

Brandari að halda öðru fram

Andrés segir að staða Rúv sé stór þáttur í umhverfi fjölmiðla hér á landi. Hann rifjar upp að í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 hafi flestir fjölmiðlar, aðrir en Rúv, verið tengdir stórum viðskiptablokkum sem féllu. Aftur á móti hafi Rúv einnig lent í fjárhagserfiðleikum.

„Það er búið að dæla fjármagni inn í Ríkisútvarpið, milljörðum á hverju ári, til að það geti stækkað og fært út kvíarnar, farið út í netfréttir og nýmiðlun, lengi vel í trássi við lög um Ríkisútvarpið,“ segir Andrés.

„Auðvitað finna aðrir fjölmiðlar fyrir því. Það er bara brandari að halda öðru fram og það að formaður Blaðamannafélagsins láti sér detta í hug að halda annarri eins firru fram er óskiljanlegt. Það segir mér það að annað hvort veit hún ekkert um þessi mál eða er að tala gegn betri vitund. Ég veit ekki hvort er verra.“

Erfitt fyrir marga fjölmiðla að dafna

Þá segir Andrés að í litlu landi eins og Íslandi sé erfitt fyrir marga fjölmiðla að dafna þegar einn sé risastór og frekur til fjárins eins og hann kemst að orði. Hann segir að Rúv taki fjármagn úr vösum skattgreiðanda nánast eftir þörfum og aldrei sé það nóg.

„Það er alltaf bara ný meðgjöf, því Rúv lendir hvað eftir annað í rekstrarvanda en það virðist ekki skipta neinu máli því það kemur alltaf meiri peningur,“ segir hann.

Svanhildur Hólm minnir á að á að fjárheimildir til Rúv hafi hækkað á þessu ári um rúman hálfan milljarð. Hún segir að vissulega hafi Rúv ýmsar skyldur við að sinna fjölbreyttum hópum, uppfræða og viðhalda menningu. Aftur á móti sé ríkisfjölmiðill nú að framleiða hlaðvörp og efni á samfélagsmiðlum.

„Stjórnendur svona miðils gera það sem þau geta og komast upp með,“ segir Svanhildur.

Í þættinum er jafnframt rætt um nýja fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og aukin ríkisútgjöld,  vantrauststillögu á dómsmálaráðherra og margt fleira.

Hlusta á þáttinn í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert