Tjón í Neskaupstað hátt í 150 milljónir

Mati er lokið vegna tjóns af völdum snjóflóðanna 27. mars.
Mati er lokið vegna tjóns af völdum snjóflóðanna 27. mars. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það sem hefur verið að gerast núna síðustu daga er að sviðsstjóri vátryggingasviðs hjá okkur fór austur um leið og fært var á laugardaginn,“ segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands, í samtali við mbl.is um mat á tjóni eftir snjóflóðin í Neskaupstað 27. mars, en heildartjónið nemur samkvæmt mati stofnunarinnar allt að 150 milljónum króna.

„Hann tók einn starfsmann með sér og þeir voru mest að skipuleggja hreinsunarstörf í íbúðum svo hægt væri að fara í tjónamatið sjálft og þetta var gert í samvinnu við björgunarsveitina, húseigendur og verktaka á svæðinu,“ heldur hún áfram.

Boðleiðirnar stuttar

Innbúsmat hófst svo á sunnudaginn og fór fram með þeim hætti að verkfræðingar frá stofum, sem Náttúruhamfaratrygging er með samninga við, gengu til verks. „Þeir unnu bara dag og nótt til að klára mötin og luku við matsgerðir í fyrrakvöld og gærmorgun þannig að það var hægt að kynna þær fyrir eigendum í gær áður en þeir fóru aftur suður,“ segir forstjórinn frá.

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúrhamfaratryggingar Íslands, sagði mbl.is af vinnubrögðunum …
Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúrhamfaratryggingar Íslands, sagði mbl.is af vinnubrögðunum í kjölfar tjóns sem heyrir undir hennar stofnun. Ljósmynd/Aðsend

Eigendur hafi að slíkri kynningu lokinni þann tíma sem þeim sé þörf á til að fara yfir mötin og leggja fram athugasemdir og ábendingar telji þeir eitthvað vanta eða matsniðurstöðu að öðru leyti ábótavant. „Um leið og eigendur hafa svo annaðhvort fengið svör við athugasemdum eða samþykkt það mat sem liggur fyrir erum við klár til að greiða út tjónið,“ útskýrir Hulda.

Kveður hún boðleiðirnar stuttar hjá Náttúruhamfaratryggingu og greiðsla fari yfirleitt fram sama dag eða daginn eftir að samþykkt mat liggi fyrir.

Hamfaraendurtryggingar vegna stórtjóna

Komi fram athugasemdir eða beiðni um einhvers konar úrbætur eða endurskoðun mats segir Hulda hvert tilfelli fyrir sig skoðað og farið yfir það með viðkomandi tjónþola. Oftast snúist slík mál um fjárhæð metinna bóta eða þá að tjónþoli telji tjón, sem ekki hefur verið talið falla undir trygginguna, eiga að heyra undir hana.

„Þá er bara farið yfir þær athugasemdir og á einhverjum tímapunkti, þegar Náttúruhamfaratrygging eða fulltrúar hennar telja að ekki verði náð lendingu með eiganda, er tekin ákvörðun í málinu og sú ákvörðun er svo kæranleg til úrskurðarnefndar sem er óháð nefnd sem starfar fyrir ráðuneytið,“ segir Hulda.

Unnið að snjómokstri í síðustu viku eftir flóðin í Neskaupstað.
Unnið að snjómokstri í síðustu viku eftir flóðin í Neskaupstað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvað með svokallaðar hamfaraendurtryggingar, notast Náttúruhamfaratrygging við þær?

„Já. Þær virka þannig að öll tjón í einum atburði sem eru hjá okkur og eru yfir tíu milljörðum eru endurtryggð á alþjóðamarkaði þar sem við erum að kaupa endurtryggingar af um það bil 25 aðilum á endurtryggingamarkaði,“ svarar Hulda.

Náttúruhamfaratrygging geri þá einn samning um slíkar endurtryggingar sem skiptist svo á milli endurtryggjendanna. „Við semjum við stærstu aðilana á þessum markaði sem eiga svo misstóran hlut í þessum samningi og fá iðgjöld frá okkur í samræmi við í hvaða hlutföllum þeir taka ábyrgð,“ heldur hún áfram. Verði tjón, sem nemur hærri upphæð en tíu milljörðum, bæta endurtryggingafélögin það upp að 45 milljörðum og deila þá á milli sín bótagreiðslum í sömu hlutföllum og þau fá iðgjöld frá okkur.“

Skyldi þetta hafa gerst?

„Já, á þetta hefur reynt, það var í jarðskjálftunum á Suðurlandi 2008,“ svarar Hulda og vísar til skjálftanna 29. maí það ár, „það tjón á núvirði er í kringum 20 milljarða,“ segir hún og kveður mikið ferli fara í gang þegar komi til kasta endurtryggjendanna alþjóðlegu.

800 milljónir eftir iðgjaldahækkun

„Við þurfum þá að standa skil á gögnum sem styðja að við séum örugglega að borga út tjón sem tilheyra okkar tryggingum og okkar skilmálum. Aðilar komu frá tryggingafélögum erlendis til að gera úttekt á gögnum og vera vissir um að allt væri samkvæmt bókinni. Við getum ekki farið neitt frjálslega með í hvaða tilvikum við greiðum bætur. Þeir semja við okkur og byggja á þeim skilmálum sem eru í gildi um trygginguna,“ útskýrir Hulda.

Tjón af völdum Suðurlandsskjálftans í maí 2008 nam um 20 …
Tjón af völdum Suðurlandsskjálftans í maí 2008 nam um 20 milljörðum króna að núvirði og þá reyndi á hamfaraendurtryggingar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Skilmálar um eigin áhættu og fleiri atriði hafi svo áhrif á iðgjöldin og bendir hún á að Náttúruhamfaratrygging hafi í fyrra greitt rúmlega 500 milljónir króna í slík iðgjöld. „Og fyrir þetta ár hækkaði það um þrjátíu prósent vegna ástandsins sem er á endurtryggingamarkaði þannig að við erum með hátt í 800 milljónir í endurtryggingagreiðslur á þessu ári. Þannig að þetta er heilmikill frumskógur en mjög mikið öryggi fyrir okkur líka,“ segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands, að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert