Bólgið og logandi rautt fés

Rithöfundurinn Kristín Helga Gunnarsdóttir var aldeilis frumleg fermingarstúlka sem fór …
Rithöfundurinn Kristín Helga Gunnarsdóttir var aldeilis frumleg fermingarstúlka sem fór sínar eigin leiðir í fatavali.

Morgunblaðið fékk nokkra þjóðþekkta einstaklinga til að draga fram fermingarmyndina og rifja upp ferminguna. Spurt var hvað hafi verið eftirminnilegast, hvort viðkomandi hafi verið sáttur við myndina og hvaða gjafir hafi verið bestar. 

Sjötíu ára gamlar blúndubrækur

„Ég hannaði kjólinn sjálf, teiknaði og valdi efnið á sama tíma og skærir litir voru alls ekki í tísku heldur muskulegir jarðlitir í flaueli. Móðursystir mín, Ragna Hjartar, var kjólameistari og saumaði eftir minni uppskrift. Og auðvitað á ég hann ennþá, en passa samt ekki í hann,“ segir rithöfundurinn Kristín Helga Gunnarsdóttir, en hún fermdist árið 1977.

Kristín Helga á enn fermingarkjólinn sinn sem hún hannaði sjálf.
Kristín Helga á enn fermingarkjólinn sinn sem hún hannaði sjálf.

„Ég var líka í síðum handsaumuðum blúndunærbrókum af og eftir ömmu mína Kristínu Helgadóttur en hún saumaði brókina í Kvennaskólanum árið 1912 svo þær voru rétt um sjötugt þegar ég fermdist í þeim og eru nú hundrað og ellefu ára,“ segir hún.

Áfall fyrir móður mína

„Klossarnir voru áfall fyrir móður mína þar sem þeir voru úr tré og það glumdi í kirkjugólfinu í Garðakirkju þegar ég þrammaði inn. Ekki veit ég hvers vegna ég hannaði svona miðevrópskan þjóðbúning til að fermast í en mér fannst þetta svakalega smart,“ segir Kristín Helga.

„Svo var ég að eðlisfari ekki svona bólgin í framan eins og ég er á fermingarmyndinni. Ég átti ljósalampa og fór í hann daginn fyrir fermingu til að verða kaffibrún á engri stundu en uppskar annars stigs brunasár í andliti, bólgið og logandi rautt fés sem var í stíl við kjólinn,“ segir hún.

Rætt er við fleiri þjóðþekkta einstaklinga um fermingar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: