Veðurstofan meðvituð um aukna hættu

Fjölbýlishúsið við Starmýri 17-19 í Neskaupstað fór einna verst út …
Fjölbýlishúsið við Starmýri 17-19 í Neskaupstað fór einna verst út úr flóðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Seint á sunnudagskvöldi kom póstur frá Veðurstofu í gegnum lögregluna, um að hefðbundinn fundur hefði verið haldinn í tengslum við komandi óveður. Þar var bara talað um raskanir á færð en ekki neitt um að við gætum átt von á snjóflóðum,“ segir Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Til umræðu eru snjóflóðin í Neskaupstað sem féllu að morgni 27. mars, eða fyrir tveimur vikum.

Fyrsta tilkynningin frá snjóruðningsmanni

Jón Björn segir að fyrsta tilkynning hafi borist honum klukkan sex um morguninn, eftir að fyrsta flóðið féll, þar sem snjóruðningsmaður varð þess var.

„Þannig að við vorum ekki með neinar aðvaranir,“ segir hann.

Þrátt fyrir það varaði Veðurstofan við snjóflóðahættu kvöldið áður, hinn 26. mars, klukkan 21.09. Sú viðvörun birtist þó einungis á facebooksíðu Veðurstofunnar. Þrjú flóð féllu í og við byggð að morgni næsta dags. Engin tilkynning var send á fjölmiðla sem ná til þorra landsmanna.

„Við vekjum athygli á aukinni snjóflóðahættu á Austfjörðum á mánudag. Spáð er ákafri snjókomu og skafrenningi á svæðinu frá sunnudagskvöldi og fram eftir mánudegi í hvössum austan- og norðaustanáttum,“ segir m.a. í færslunni á Facebook, sem hélt svo áfram:

„Búist er við að snjóflóðahætta á Austfjörðum aukist mikið við þetta og hefur svæðisbundna snjóflóðaspáin fyrir fjalllendið verið sett á rauðan. Talið er ólíklegt að hætta skapist í byggð í þessu veðri en ofanflóðavakt Veðurstofunnar fylgist náið með þróuninni.“

Mikil mildi þykir að ekki fór verr.
Mikil mildi þykir að ekki fór verr. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Færsla á bak við flipa

Á sjálfum vef Veðurstofunnar birtist færsla sama sunnudag, þar sem vikið er að aukinni snjóflóðahættu. Færsluna má finna á bak við hnappinn „Fréttir“, sem er undir flipanum „Ofanflóð“, ofarlega á forsíðu vefsins.

Óhætt er að fullyrða að ekki margir eigi leið þangað í fréttaleit.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert