Ís­lenskur höfuð­paur hand­tekinn í Brasilíu

Lög­reglan lagði m.a. hald á 65 kíló af kókaíni, 225 …
Lög­reglan lagði m.a. hald á 65 kíló af kókaíni, 225 kíló af kanna­bis­efn­um og 57 fast­eign­ir Ljósmynd/Brasilíska alríkislögreglan

Alríkislögreglan í Brasilíu handtók í dag 33 einstaklinga í tengslum við umfangsmikla aðgerð sem hafði það að markmiði að uppræta glæpasamtök þar í landi sem sögð eru sérhæfa sig í peningaþvætti og eiturlyfjasölu. Einn Íslendingur, sem sagður er einn höfuðpaura, var handtekinn í aðgerðum dagsins.

Þetta kemur fram á vefsíðu basilísku alríkislögreglunnar en DV greindi fyrst frá.

Samtökin eru sögð teygja anga sína víða um Brasilíu og var aðgerðin framkvæmd í tíu borgum landsins.

Aðgerð lögreglunnar bar heitið „Match point“ og unnu lögregluembætti í Brasilíu að henni í samvinnu við lögregluna á Ítalíu og Íslandi í gegnum Europol. Þá voru íslenskir lögreglumenn á staðnum þegar aðgerðin var framkvæmd.

Höfuðstöðvar Europol.
Höfuðstöðvar Europol. AFP

Um 250 lögreglumenn tóku þátt í verkefninu og lagði lögregla hald á 65 kíló af kókaíni, 225 kíló af kannabisefnum og 57 fasteignir auk ökutækja og skipa ásamt því að loka fyrir bankareikninga 43 einstaklinga.

Lögreglan telur verðmæti eignanna sem gerðar voru upptækar geta numið um 150 milljóna brasilísks ríal eða um 4,2 milljörðum íslenskra króna.

Tilkynningu frá ríkislögreglustjóra vegna málsins má sjá hér að neðan:

„Í morgun handtók brasilíska lögreglan fjölda einstaklinga, þar á meðal Íslending, í stórum aðgerðum lögreglunnar þar í landi. Íslensk lögregluyfirvöld hafa unnið með brasilískum yfirvöldum vegna málsins og tóku starfsmenn íslensku lögreglunnar meðal annars þátt í aðgerðunum. Aðgerðin sem gengur undir heitinu „Match Point“ var með það markmið að leysa upp skipulögð samtök sem hafa sérhæft sig í peningaþætti og fíkniefnasmygli. Grunur er um að samtökin stundi víðtæka brotastarfsemi í Brasilíu.

Um 250 lögreglumenn tóku þátt í aðgerðunum sem náðu til 10 borga í Brasilíu, bankareikningar 43 einstaklinga hafa verið frystir og 57 eignir haldlagðar auk ökutækja og skipa. Þá voru um 65 kíló af kókaíni haldlögð og 225 kíló af kannabisefnum. Aðgerðir standa enn yfir en nánari upplýsingar má finna í fréttatilkynningu brasilískra yfirvalda sem finna má hér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert