Ný stefna vegna náttúruvár lögð til

Ofanflóðin í Neskaupstað hafa sett svip sinn á síðustu vikur.
Ofanflóðin í Neskaupstað hafa sett svip sinn á síðustu vikur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ný skýrsla umhverfisráðherra um stöðu undirbúnings vegna náttúruvár varpar ljósi á kröfur ráðuneytisins um endurbætur í málaflokknum. Leggja þurfi áherslu á frekara áhættumat og rannsóknir á náttúruvá auk endurnýjunar þekkingar á sviðinu.

Í skýrslunni kemur fram að verkefnalisti næstu fimm ára í þessum málaflokki beri fleiri en tuttugu áskoranir og sextíu mikilvæg verkefni. Vinna að nýrri stefnu sem varðandi náttúruvá á Íslandi er lögð til.

„Slík stefna mun draga fram skýra mynd um forgangsröðun verkefna sem er undirstaða fyrir fjármálaáætlanir stjórnvalda til málaflokksins til framtíðar litið. Mikilvægt er að fjármálaáætlun endurspegli þörf samfélagsins til að geta tekist á við náttúruvá sem og afleiðingar atvika af völdum náttúruvár. Gerð stefnu gefur einnig tækifæri til að yfirfara lög og reglugerðir sem snúa að náttúruvá og meta hvort breytinga er þörf,“ segir í skýrslunni.

Mælingar byggi grunninn 

Fram kemur að grunnur rannsókna um náttúruvá og loftslagsbreytingar byggi á betri kortlagningu og mælingum á stöðu mála. Huga þurfi að endurnýjun mælitækja til þess að ásættanleg vöktun geti átt sér stað. Rannsóknir og úrvinnsla gagna séu lykilþáttur í því að skilja náttúruvá og forboða hennar.

„Þetta á t.d. við um vatns- og sjávarflóð, ofanflóð og úrkomumælingar. Loftslagsbreytingar kalla einnig á aukna vöktun t.d. á sjávarstöðu, raka í jarðvegi og gróðri svo og skriðu- og berghrunshættu. Á sama hátt kallar skjálfta- og eldvirkni á að GPS- og jarðskjálftamælar séu endurnýjaðir með reglubundnum hætti og að sá möguleiki sé fyrir hendi að þétta mælikerfið þegar þurfa þykir vegna aukinnar virkni og hættu á eldsumbrotum,“ segir í skýrslunni.

Greiður aðgangur auki skilning 

Þá er bent á að menntun sérfræðinga á þessum sviðum skipti höfuðmáli bæði þegar kemur að náttúruvá og yfirvofandi loftslagsbreytingum. Skortur sé bæði á sérhæfðu starfsfólki og fjármagni þegar að þessu kemur. Einnig sé mikilvægt að almenningur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um málefni þessi á stafrænu formi, það auki skilning og stuðli að réttum viðbrögðum og góðri ákvarðanatöku. Til þess að þetta megi efla sé þörf á frekara fjármagni.

„Umfangsmikil fjárþörf liggur fyrir í málaflokknum, sérstaklega þar sem mörg af þeim verkefnum sem eru brýn þurfa trygga fjármögnun. Miðað við núverandi fyrirkomulag mun það taka mörg ár að koma á dagskrá og ljúka nauðsynlegum hættumatsverkefnum vegna náttúruvár og loftslagsbreytinga auk aðlögunaraðgerða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert