Spyr hvort stýrihóp þurfi til svo gámar séu tæmdir

Á myndinni má sjá mikið magn pappa fyrir utan yfirfullan …
Á myndinni má sjá mikið magn pappa fyrir utan yfirfullan gáminn. Haraldur segir sorp fjúka um hverfið vegna ástandsins. Samsett mynd

Haraldur Dean Nelson, íbúi í Smáíbúðahverfinu, vakti í kvöld athygli á því sem hann kallar hryllilega umgengni við grenndargám á Sogavegi. Haraldur veltir því upp hvort Reykjavíkurborg þurfi að setja upp stýrihóp til að laga ástandið.

„Þetta er algjör hryllingur,” segir Haraldur sem fullyrðir að þetta sé langt frá því að vera einsdæmi.

„Þetta er bara mjög oft svona, því miður.“

Bæði yfirvöld og íbúar beri ábyrgð

Haraldur segir það greinilegt að tæmingaráætlun borgarinnar sé ekki í samræmi við það magn úrgangs sem fylli gámana.

Að mati Haraldar er það ótrúlegt að fólk skuli ganga svona um þegar gámarnir eru fullir sérstaklega í ljósi þess að það séu fleiri gámar í grenndinni og endurvinnslustöð í nágrenninu við Sævarhöfða.

Í ljósi þess sé ótrúlegt „að mönnum skuli detta það í hug að henda ruslinu þarna fyrir utan því gámarnir eru fullir“.

Tafir síðast í upphafi árs

Um 90 grenndargámar eru á höfuðborgarsvæðinu og hafa þeir reglulega ratað í fréttir fyrir að standa lengi yfirfullir. Í upphafi árs urðu langvarandi tafir á að tæma endurvinnsluefni í Reykjavíkurborg en það var meðal annars rakið til mikillar snjókomu og vandræða verktaka, sem tæma gámana, við að athafna sig í fannferginu.

„Kannski þarf bara að setja upp stýrihóp eins og með snjómoksturinn. Eftir margra mánaða fundarhöld yrði niðurstaðan þá sennilega sú að lagt verði til að verklagi við tæmingu gáma verði breytt, þannig að tæming taki mið af því hversu mikið er í gámunum,“ segir Haraldur í Facebook-færslu um málið. 

mbl.is