Vilja endurnýja veginn yfir Kjöl

Mögulegar endurbætur á Kjalvegi myndu stytta vegalengdir landshorna á milli …
Mögulegar endurbætur á Kjalvegi myndu stytta vegalengdir landshorna á milli til muna. mbl.is/Einar Falur

Þingsályktun þess efnis að endurnýja veginn yfir Kjöl með einkaframkvæmd hefur verið lögð fram á Alþingi af átta þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Njáll Trausti Friðbertsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. 

Vegalengdir landshorna á milli myndu styttast 

Með heilsársvegi yfir Kjöl opnast sá möguleiki að stytta til muna vegalengdir landshorna á milli og auðvelda þannig ferðir á milli staða. Um yrði að ræða styttingu sem nemur um hundrað kílómetrum. Um leið skapast tækifæri til að þróa nýjar ferðamannaleiðir.

Í þingsályktunartillögunni sem birt er inni á vef Alþingis kemur fram að vegurinn yfir Kjöl verði endurnýjaður. Í samtali við blaðamann mbl.is segir Njáll Trausti góða möguleika á því að halda veginum opnum yfir stóran hluta ársins.

„Þetta er ekki endilega lagt þannig að þetta verði heilsársvegur en það ætti að geta gengið um átta mánuði á ári að halda honum opnum. Stór hluti í þessu er að nýta betur innviði vítt og breitt um landið sem eru vannýttir í dag."

Fjölgun bílaleigubíla gríðarleg

Fram kemur í þingsályktuninni að fjölgun bílaleigubíla sé gríðarleg enda farþegaspár í ár komnar í 2,3 milljónir ferðamanna. Til samanburðar má geta þess að árið 2005 voru ferðamenn hér á landi um 360 þúsund. Njáll spáir því að næsta áratuginn muni fjöldi bílaleigubíla hér á landi margfaldast.

„Miðað við spárnar sem eru í gangi núna um ferðamannstrauminn og hvernig hann muni þróast næsta áratuginn, kæmi mér ekki á óvart að hér væru komnir 30-35 þúsund bílaleigubílar eftir 10 ár. Ég myndi halda að þetta verði raunverulega þeir sem muni bera uppi kostnaðinn á einkaframkvæmdinni því þetta er hugsað sem einkaframkvæmd og að menn borgi fyrir að keyra veginn."

Veggjaldið um 3.000 krónur

Aðspurður um mögulegan kostnað við framkvæmdirnar segir Njáll Trausti það eiga eftir að koma betur í ljós þar sem kostnaðarmatið eigi eftir að fara fram. Hann segir það fara eftir ýmsu.

,,Kostnaðurinn gæti hlaupið á 10 milljörðum. Svo er spurning hvernig menn vilja fara í þetta mál og hvort menn vilji til að byrja með tengja við Landvirkjunarveginn norðanmegin. Dýrari leiðin yrði að fara alla leið niður í sunnanverðan Skagafjörð sem yrði um leið mesta styttingin í Eyjafjörðinn og þar austur af en þetta yrðu alltaf miklar styttingar fyrir ferðamenn sérstaklega.“

Gert er ráð fyrir að framkvæmdin standi undir sér að öllu leyti með notendagjöldum með svipuðum hætti og staðið hefur verið að málum varðandi Hvalfjarðargöng. Hvað veggjaldið varðar segir Njáll Trausti líklegt að það verði öðru hvoru megin við 3.000 krónur.

Hugmyndin um ósnortið hálendi

Þegar kemur að umhverfissjónarmiðum segir Njáll Trausti mikilvægt að taka þá umræðu. 

,,Það er nýr punktur í þessu sem við þurfum virkilega að hugsa um og það eru t.d. rafmagnsbílarnir. Hugmyndafræðin í dag er að rafmagnið taki við sem orkugjafi í bílaleigubílunum á næstu árum og þá held ég með alla þessa dreifingu og fyrir þá er minni eyðsla að keyra á bundnu slitlagi heldur en á malarvegi. Þetta er líka umhverfismál þeim megin frá sem og loftlagsmál. Mín persónulega ágiskun er sú að ef þessi vegur væri til staðar þá væri 80% af umferðinni bílaleigubílar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert