Segja Landsvirkjun ekki hafa tryggt laxastofninn

Mannvirki hafa verið sett inn á loftmynd af svæðinu. Stíflan …
Mannvirki hafa verið sett inn á loftmynd af svæðinu. Stíflan og Hagalón eru mest áberandi. Mikið lokukerfi er í stíflunni og laxastigi og seiðafleyta til hliðar. Stöðvarhúsið verður lítt sýnilegt í landi Hvamms, til hægri á myndinni. Tölvugerð mynd/Landsvirkjun

Verndarsjóður villtra laxastofna mótmælir harðlega fyrirhugaðri framkvæmd Landsvirkjunar með Hvammsvirkjun og segir framkvæmdina vera umhverfislega óábyrga á meðan Landsvirkjun geti ekki tryggt tilvist hins villta laxastofns í Þjórsá.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá verndarsjóðnum.

Stórskaða einn stærsta laxastofn í Norður-Atlantshafi

Segir verndarsjóðurinn framkvæmdina gríðarlega neikvæða fyrir villta laxastofna og lífríki Þjórsár.

„Landsvirkjun hefur ekki lausn á alvarlegum vandamálum sem munu stórskaða stærsta laxastofn á Íslandi og einn þann stærsta í Norður-Atlantshafi,“ segir í fréttatilkynningunni.

Minnt er á að þessi villti stofn tilheyri hvorki Íslendingum einum né eingöngu þeim kynslóðum sem nú lifa og er bent á að stofninn hafi verið þarna frá því löngu fyrir landnám og muni vera þar áfram ef mannanna verk koma ekki í veg fyrir það.

Hvergi komið fram hvernig bregðast eigi við skaða

Í fréttatilkynningu Verndarsjóðsins er vísað til fréttaþáttarins Kveiks en þar benti oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps á það að hvergi hafi komið fram hvernig eigi að bregðast við ef laxastofnar og lífríki Þjórsár verði fyrir skaða. Þá segir að forstjóri Landsvirkjunar hafi ekki skýrt hvernig tryggt verði að stofninn verði ekki fyrir óafturkræfum skaða.

Verndarsjóður villtra laxastofna staðhæfir í fréttatilkynnigunni að eftirfarandi atriði munu skaða villtan lax í Þjórsá:

  • Lax leitar að sterkasta straumnum og mun því ekki finna þá kvísl sem honum er ætlað að nýta sökum lítils rennslis, heldur mun hann stoppa við frárennsluskurðinn úr virkjuninni og tefjast þar. Langt fyrir neðan virkjunina.
  • Í sambærilegri virkjun í ánni Umeälv í Svíþjóð fundu 70% laxar ekki farveginn og það tafði gönguvegferð laxanna um heila 52 daga. Í óblíðri náttúru Íslands verður það afdrifaríkt.
  • Sú hugmynd Landsvirkjunar sem kom fram í Kveik, að veiða einfaldlega stærsta laxastofn landsins og flytja upp fyrir svæðið lýsir engu öðru enn fullkomnu skeitingarleysi um náttúru og villta dýrastofna.
  • Seiðafleyta Landsvirkjunar, sem á að tryggja að laxaseiði komist ósködduð niður ána vekur upp margar spurningar. Samkvæmt þeim gögnum sem hafa verið lögð fram er ekki hægt að sjá að seiðin fari neitt frekar í fleytuna en í túrbínur virkjunarinnar.

Þannig leggst Verndarsjóðurinn alfarið gegn áformum Landsvirkjunar á meðan fyrirtækið hyggst ekki tryggja öryggi og afkomu eins stærsta villta einstaka laxastofns Norður-Atlantshafsins, eins og fram kemur í fréttatilkynnigunni.

Matth­ías Stef­áns­son, Íslands­meist­ari í júdó og verðlaunaður rokk­ari, með fallegan …
Matth­ías Stef­áns­son, Íslands­meist­ari í júdó og verðlaunaður rokk­ari, með fallegan lax úr opnun Urriðafoss í Þjórsá árið 2021. Ljósmynd/Stefán Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert