Stöðvaði urðun hræjanna frá Miðfirði

Birgir Ingþórsson, bóndi á Uppsölum. Urðun á hræjum frá Syðri-Urriðaá …
Birgir Ingþórsson, bóndi á Uppsölum. Urðun á hræjum frá Syðri-Urriðaá var stöðvuð að hans frumkvæði á þriðjudag. Ljósmynd/Aðsend

„Bæði Matvælastofnun og Matvælaráðuneytið hefur gengið mjög freklega fram við að fara á svig við lög og reglur,“ segir Birgir Ingþórsson, bóndi á Uppsölum, en urðun fjárstofnsins frá Syðri-Urriðaá sem átti að fara fram á Lækjarmótum á þriðjudag, var stöðvuð að hans frumkvæði.

„Þetta var ákveðið bara einn, tveir og þrír. Það var enginn látinn vita af því að það skyldi urða þarna. Ég vissi ekki betur en það væru lög og reglur í landinu og það þyrfti sérstakt leyfi og grenndarkynningu ef ætti að fara að urða dýrahræ,“ segir Birgir.

Hótaði lögbanni

Birgir gerði alvarlegar athugasemdir við urðunarstaðinn en hann á jörðina Melrakkadal ásamt syni sínum og nota þeir jörðina sem ræktar og beitarland.

„Ég hafði samband við Matvælastofnun og Umhverfisstofnun. Þá hafði ég samband við héraðsdýralækni og svo fulltrúa í sveitarstjórn. Ég gerði þeim það fyllilega ljóst að þetta yrði stöðvað með lögbanni eða ég myndi sækja málið og láta fjarlægja þetta. Fyrir rest sáu þeir að sér.“

„Telur sig geta valtað yfir okkur“

Birgir segir Matvælastofnun hafa gengið harkalega fram sem og Matvælaráðuneytið með ráðherra í broddi fylkingar.

„Ráðherra kemur að þessu máli. Hún telur sig í sínu valdi geta valtað yfir okkur hinn almenna þegn. Það var í raun og veru það sem ég var að stöðva.

Ég veit alveg að stjórnsýslan, hún þakkar mér ekki neitt, ég get alveg sagt þér það.“

Þetta bíður ekki endalaust í jarðveginum

Birgir segir þá feðga nýta beit á næstu jörð og að sauðfé gangi þar um.

„Þetta stendur uppi í landinu og þetta fer eitthvert, þetta bíður ekki bara endalaust í jarðveginum. Þarna er líka stutt í laxveiðiá og svo er lækur hinum megin.“

Hann spyr sig hvert þetta berist og segir ekkert annað í boði en að brenna hræin og að það sé ekki heimilt að urða bara einhvers staðar og einhvers staðar.

„Það er búið að dæma hjörðina sýkta og þess vegna er henni lógað og þá getur ekki verið eðlilegt að grafa þetta án þess að spyrja næstu nágranna.“

Fara með á löglegan urðunarstað

Birgir segir að ef um neyðarrétt sé að ræða, eins og hefur verið rætt, þá hljóti að vera eðlilegt að fara með þetta á löglegan urðunarstað.

„Á löglegum urðunarstað er urðaður alls konar úrgangur. Ef beita á neyðarrétti hlýtur að vera eðlilegt að fara í svæði sem búið er að taka úr, búið að drena og annað þess háttar og er stutt frá sjó.

Þannig er ekki að koma úrgangur úr þessu niður yfir önnur lönd. Ef menn ætla að beita þessu þá á þetta að fara á löglegan urðunarstað en ekki bara eitthvað út í móa.“

Mátti setja í venjulega frystigáma

Eins og fram hef­ur komið er bil­un í Kolku, einu brennslu­stöðinni í land­inu en stöðin verður komin í gagnið eftir rúma viku. Birgir segir ekkert vandamál hafa verið að frysta hræin.

„Ég hef nú svolítið starfað við þennan geira. Það mátti bara setja þetta í venjulega fyrstigáma en það mátti bara ekki setja of mikið í þá þannig að þetta væri fljótt að frjósa. Þá held ég að þetta hefði ekki verið vandamál,“ segir hann.

Eina leiðin að urða á vottuðum urðunarstað

Hann segir einu leiðina nú vera að fara með hræin á vottaðan urðunarstað þar sem nú sé farin að myndast gerjun í þessu og þannig sé urðun eini kosturinn í stöðunni.

„Það er ekki hægt að frysta þetta héðan af.“

Birgir var að lokum spurður hvernig hann sæi málinu ljúka. Hann hugsaði sig um eitt augnablik og sagði svo með alvarlegum tóni:

„Ég veit það ekki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert