Myndastoppin víða hættusöm

Á sumum vinsælum áningarstöðum hefur verið byggð upp ágæt aðstaða …
Á sumum vinsælum áningarstöðum hefur verið byggð upp ágæt aðstaða og aðgengi er gott en á öðrum þarf að gera ýmsar úrbætur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gera þarf úrbætur og auka umferðaröryggi á mörgum þeirra áningarstaða ferðamanna sem finna má við Gullna hringinn svonefnda um Þingvallaveg, að Geysissvæðinu og Gullfossi og niður á Suðurlandsveg skammt norðan við Selfoss.

Þetta má lesa út úr skýrslu VSÓ Ráðgjafar fyrir Vegagerðina og menningar- og viðskiptaráðuneytið um helstu staði á Gullna hringnum þar sem ferðamenn stoppa oft til að virða fyrir sér útsýnið, taka myndir eða skoða norðurljósin. Þessi u.þ.b. 210 km vegalengd er fjölfarnasta ferðamannaleið landsins.

Kort/mbl.is

Í skýrslunni eru kortlagðir 24 áningarstaðir eða myndastopp á Gullna hringnum og leggja höfundarnir til að gerðar verði úrbætur á níu stöðum, m.a. til að draga úr slysahættu. Í flestum tilfellum er ástæðan sögð sú að í ljós kom að tenging við þjóðveginn er ekki nógu góð, vegsýn takmörkuð og umferðaröryggi ógnað. Einnig leggja þeir til að byggðir verði upp þrír nýir áningarstaðir til að draga úr hættu á umferðarslysum og stýra betur aðgengi að viðkvæmri náttúru.

Á sumum vinsælum áningarstöðum hefur verið byggð upp ágæt aðstaða og aðgengi er gott en á öðrum þarf að gera ýmsar úrbætur. T.a.m. er umferðaröryggi sagt slæmt á vinsælum stað við Vilborgarkeldu á Þingvallaveginum en þar er aðkoma að staðnum sögð geta verið hættuleg vegna krapprar beygju út af þjóðveginum. 

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert